Insight svaraði ekki kalli leiðangursstjórnenda á jörðinni á sunnudag en síðast náðist samband við farið fimmtudaginn 15. desember. Í tilkynningu á vefsíðu NASA segir að kraftur Insight hafi farið þverrandi undanfarna mánuði eins og búist var við. Ekki liggi fyrir hvað olli því að það missti aflið nú. Tilraunir verði áfram gerðar til þess að ná sambandi.
„Orkan mín er að þrotum komin þannig að þetta gæti verið síðasta myndin sem ég sent. Ekki hafa áhyggjur af mér samt, tími minn hér hefur verið bæði afkastamikill og friðsæll. Ef ég get haldið áfram að tala við leiðangursteymið mitt þá geri ég það en ég fer að skrá mig út héðan bráðum. Takk fyrir að fylgja mér eftir,“ sagði í tilfinningasömu tísti á Twitter-reikningi Insight-leiðangursins í gær.
Á mynd sem NASA birti á samfélagsmiðlum má sjá hluta geimfarsins þakinn rauðleitu ryki. Líkt og mörg önnur lendingarfar á Mars er Insight knúið sólarorku og því er líklegt að það hafi verið rykið á sólarsellunum sem lamaði það á endanum. Opportunity, könnunarjeppi NASA, hlaut sömu örlög eftir fimmtán ára ferðalag um rauðu reikistjörnuna árið 2019.
Update on @NASAInSight: On Dec. 18, the Mars lander did not respond to communications from Earth. Power has been declining for months, as expected, and this may mean the end of operations for the spacecraft. The team will try again to contact InSight. https://t.co/PsDaWokb9Z pic.twitter.com/ZVACs9EgmB
— NASA JPL (@NASAJPL) December 20, 2022
Insight lenti á Mars 26. nóvember árið 2018 en geimfarinu var ætlað að kanna jarðvirkni og innviði reikistjörnunnar. Farið náði aðalvísindamarkmiðum sínum á fyrstu tveimur jarðárunum þar. Alls hefur Insight numið fleiri en 1.300 Marsskjálfta og varpað ljósi á loftsteinaárekstra og innri samsetningu Mars.
Gögn frá Insight voru meðal annars notuð til þess að bera kennsl á mögulega virkan möttulstrók undir yfirborði reikistjörnunnar. Sú uppgötvun þykir marka tímamót þar sem Mars hefur verið talinn jarðfræðilega óvirk reikistjarna til þessa.