Þáttinn má sjá í spilaranum hér að neðan:
Í ár var áhersla lögð á ný verk frá listamönnunum og frumlegheit og sköpunargleði umlykja rýmið.
Þunnt smurð
„Þetta fjallar um þessa tilfinningu sem ég held að flestir í samfélaginu okkar i dag tengja við, að finnast maður vera þunnt smurður i lífinu,“
segir listakonan Svanhildur Gréta.

Á sýningunni er hún meðal annars með ljósmyndaverk sem grípur augnablik úr gjörningi. Verkið kallar hún Þunnt smurð og lýsir því sem eitthvað sem margir mættu vera meðvitaðri um.
„Þegar maður er með marga bolta á lofti, alveg á fullu og kannski að reyna að gera allt þá endar maður á því að ná ekki að gera neitt, þá verður allt frekar þunnt. Það er sú tilfinning sem ég er að tjá í þessu verki.
Undanfarið hef ég verið að gera gjörninga en alltaf með ljósmyndina sem niðurstöðu og ég leik mér svolítið að því hvað gjörningur sé þegar ljósmyndin er eina heimildin um hann.“
Kúrekahatturinn
„Mér finnst einhver fegurð í því að teikna jafn einfaldan hlut eins og hatt og endurtaka hann,“ segir listamaðurinn Sigurður Árni um seríu sína af kúrekahöttum en hann teiknar misjafnar stöður á hattinum.

„Auðvitað er ég um leið að kinka kolli á listasöguna því það er texti þarna undir sem segir að þetta sé ekki hattur heldur kúrekahattur, sem gefur náttúrulega augaleið,“ bætir Sigurður Árni við og vísar hann þar í súrrealíska listamanninn René Magritte sem gerði meðal annars verkið Ceci n’est pas une pipe, eða Þetta er ekki pípa.
Leyndarmál og frelsi áhorfandans
Myndlistarkonan Elísabet Anna stendur fyrir seríunni Leyndarmálið á sýningunni. Öll verk hennar tengjast innbyrðis en geta einnig staðið eitt og sér.
„Ég hugsa þetta smá sem kafla í bók og hvert verk er ein lítil sena og narratíva út af fyrir sig. Í minni myndlist vinn ég oft með söguþráð sem er frekar opinn og brotakenndur og ég leyfi áhorfendum að búa til sína eigin frásögn.“

Elísabet notast gjarnan við gamlar ljósmyndir en andlit viðfangsefna eru falin með bróderingu.
„Ástæða þess að ég hyl andlit fólks er i raun til að gera þetta pínu svona nafnlausa frásögn. Ég vil líka að áhorfandi geti fengið að setja sjálfan sig i frásögnina, annað hvort verið sögumaður eða söguhetjan.
Myndirnar eru einnig tiltölulega kunnuglegar og fólk getur fengið tilfinningu fyrir því að þetta sé úr þeirra eigin fjölskyldualbúmi.“
Afbökun og út úr snúningar
„Þetta er sería af lágmyndum sem ég gerði. Hver og ein lágmynd er þverskurður eða eins konar sniðmynd úr römmum af safni Listasafns Íslands,“ segir listakonan Guðlaug Mía sem er með nokkur verk á sýningunni í ár. Titlarnir á hverju verki fyrir sig heita eftir þeim verkum sem sitja í römmunum sjálfum.

„Mér finnst mjög oft skemmtilegt að rannsaka formin sem leynast í kringum okkur og finnst spennandi að skoða þau út frá afbökun og út úr snúningum,“ bætir Guðlaug Mía við.
Þættirnir KÚNST með Dóru Júlíu rannsaka hinar ýmsu víddir listsköpunar, ólíka listmiðla og sköpunargleði hjá íslenskum samtíma listamönnum ásamt því að fá að skyggnast bak við tjöldin og heyra um persónulegt líf þeirra.