Reykjanesbraut var lokuð í rúman sólarhring vegna veðurs í vikunni og var fjölda ferða aflýst vegna þessa, þó aðstæður á flugvellinum sjálfum hafi verið í lagi. Breiðþotur voru meðal annars leigðar til að koma fólki fyrr á leiðarenda en alls höfðu raskanirnar áhrif á um 24 þúsund farþega.
Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir marga hafa haft samband vegna málsins.
„Fólk hefur talsvert hringt í okkur eða haft samband til að kanna mögulegan rétt sinn gagnvart þessum aðstæðum sem sköpuðust. Þannig við höfum haft í nógu að snúast að svara því eins og hægt er,“ segir Þórhildur.
Eiga alltaf rétt á ákveðinni aðstoð
Sömu sögu er að segja af Neytendasamtökunum en Breki Karlsson, formaður samtakanna, segir farþega alltaf eiga rétt á ákveðnum bótum.

„Burtséð frá ástæðunni fyrir seinkun eða aflýsingu, hvort sem það er veður eða náttúruhamfarir, þá eiga flugfarþegar rétt á aðstoð frá flugrekanda. Það er máltíð eða einhvers konar hressing í samræmi við lengd tafarinnar og svo hótelgisting ef að svo ber undir,“ segir Breki.
Flugrekenda sé skilt að bjóða upp á slíkt en geri hann það ekki á farþegi rétt á endurgreiðslu á máltíðum og gistingu. Þá eigi farþegar mögulega rétt á skaðabætum ef að um er að ræða aðstæður sem að flugrekandi átti að sjá fyrir. Hann hvetur fólk til að leita réttar síns.
„Það er mjög mikilvægt að fólk sæki sér þennan rétt því það hefur verið barist fyrir honum, ef við sækjum ekki rétt okkar þá fellur hann niður. Þannig það er um að gera að sækja rétt sinn og fá þessa endurgreiðslu sem fólk á rétt á, og bætur í sumum tilvikum,“ segir Breki.
Best ef flugrekandi og farþegi ná saman
Þórhildur tekur undir það að fólk eigi alltaf rétt á ákveðnum bótum en það fari eftir aðstæðum hverju fólk á rétt á.

Ef að aðstæður eru óviðráðanlegar, líkt og með veður, þá geti það haft áhrif á skaðabætur. Þá spili inn í lengd ferðalagsins, hvort um sé að ræða aflýsingu eða seinkun, hvort fólk sé komið á flugvöllinn, og svo framvegis.
Samgöngustofa tekur þó aðeins málið fyrir ef að farþegi og flugrekandi ná ekki saman, sem er alltaf fyrsta val.
„Það er í raun ekki fyrr en í harðbakkann slær sem að Samgöngustofa kemur að málum. Ef að kvörtun berst frá fareþega, þá er það í kjölfar þess að þau ná ekki niðurstöðu með flugrekenda. Þannig best er alltaf að það sé fullreynt fyrst áður en hið formlega kvörtunarferli fer af stað en vissulega geta verið einhver úrlausnarefni sem að verða bara skoðuð,“ segir Þórhildur.
Ítarlegar upplýsingar um réttindi farþega má finna bæði á vef Neytendasamtakanna og á vef Samgöngustofu.
Megi ekki gerast aftur
Innviðaráðherra hefur skipað starfshóp um málið og mun sá hópur skila niðurstöðum innan mánaðar. Umhverfis og samgöngunefnd fundaði þá um málið í dag og kallaði innviðaráðherra á fundinn.
Vilhjálmur Árnason, formaður nefndarinnar, segir ljóst að þörf sé á að byggja upp samgönguinnviði að Keflavíkurflugvelli líkt og gert hefur verið á flugvellinum sjálfum.
„Það voru allir algjörlega sammála um það að það þyrfti að bregðast við og það væri mikið öryggismál að þetta kæmi ekki fyrir aftur. Þetta er þjóðaröryggismál og líka bara öryggismál fyrir þá sem eru hér á ferðinni,“ segir Vilhjálmur.