SA leggja til að gerður verði efnislega samhljóða kjarasamningur milli SA og Eflingar-stéttarfélags og þegar hefur verið samþykktur af 18 af 19 aðildarfélögum SGS. SA segjast áfram tilbúin til viðræðna við Eflingu um aðlögun innan kostnaðarramma SGS samningsins og þeirra meginlína sem samningur markar.
SA vekja á heimasíðu sinni athygli á því að samningar hafi náðst við áttatíu þúsund manns hringinn í kringum landið. Það sé meirihluti almenns vinnumarkaðar.
„Slíkir kjarasamningar eru stefnumarkandi í eðli sínu og leggja því grunn að öllum kjarasamningum í þessari samningalotu, bæði á almennum og opinberum markaði,“ segir á heimasíðu SA.
Samtök atvinnulífsins segja kauptaxta kjarasamnings Eflingar þegar hafa hækkað um 35.500 krónur á árinu 2022.
„Lægsti taxti Eflingar hækkaði þ.a.l. um 10,7% fyrr á árinu 2022 og meðaltaxti um 10,3%. Taxtar hækkuðu því umfram verðbólgu á árinu 2022. Þegar hækkanir kauptaxta SGS 1. janúar, 1. apríl og 1. nóvember 2022 eru teknar saman þá hefur lægsti taxti SGS hækkað á árinu 2022 um kr. 70.500 og meðaltaxti um kr. 78.000. Það jafngildir um 21 – 24,5% hækkun kauptaxta á einu ári. Með þessum hækkunum verða dagvinnulaun SGS taxtafólks um 900 þús. kr. hærri á árinu 2023 en þau voru á árinu 2021. Meðalheildarlaun, með vaktaálagi og yfirvinnu, hækka mun meira.“
SA lagði fram samninginn á samningafundi með Eflingu hjá ríkissáttasemjara í gær. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að samninganefnd félagsins muni hittast á sunnudag til að klára móttilboð sitt. Ekkert hefur verið ákveðið með næsta samningafund.