Jacinda Ardern var kjörin varaformaður nýsjálenska Verkamannaflokksins í mars 2017. Skömmu fyrir þingkosningar fimm mánuðum síðar sagði leitogi flokksins af sér vegna slægs gengis flokksins í könnunum og Ardern var einróma kjörin formaður. Hún sópaði fylgi að flokknum sem myndaði minnihlutastjórn með tveimur öðrum flokkum í október 2017 og Ardern varð yngst kvenna í heiminum til að leiða ríkisstjórn þá 37 ára gömul.

Ardern naut mikillar virðingar fyrir skjót viðbrögð hennar við fjöldamorðunum í mosku í borginni Christchurch í mars 2019 þegar hún kom í gegn lögum um mjög herta byssulöggjöf. Þá nutu aðgerðir stjórnar hennar í covid-faraldrinum almenns stuðnings. Verkamannaflokkurinn vann stórsigur í þingkosningum í október 2020 og myndaði eftir það fyrstu meirihlutastjórn á Nýjasjálandi frá því hlutfallskosningar voru teknar upp í landinu árið 1996.
Jafnvel þótt nýjustu kannanir bendi til að bæði persónufylgi Ardern og fylgi Verkamannaflokksins hafi dalað mikið, sem ekki hvað síst er skrifað á aukna verðbólgu og minnkandi kaupmátt heimila, kom afsögn hennar í gærkvöldi að íslenskum tíma flestum mjög á óvart.

Hún sagðist ekki segja af sér vegna þess að hún tryði því ekki að Verkamannaflokkurinn gæti ekki unnið sigur í kosningunum í október næst komandi. Þvert á móti. Flokkurinn þyrfti hins vegar á nýjum leiðtoga að halda til að axla byrðarnar á næsta kjörtímabili. Embættinu fylgdi mikil ábyrgð, meðal annars sú ábyrgð að þekkja sinn vitjunartíma.
„Ég veit hvað þarf til að sinna þessu embætti og ég veit að ég hef ekki lengur nóg á tanknum til að gefa það sem þarf til þess. Málið er svona einfalt,“ sagði Ardern.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er fjórum árum eldri en Ardern og hefur hitt hana nokkrum sinnum og átt samstarf með henni um þróun velsældarhagkerfisins. Hún segir afsögn Ardern koma á óvart en stjórn hennar hafi lent í ýmsum áföllum á valdatíma hennar.
„Þannig að hún hefur auðvitað staðið sig vel. Það er alltaf merkilegt þegar fólk í raun og veru tekur af skarið og segist vera komið með nóg eins og hún sagði í sínu ávarpi. Að hún væri búin með eldsneytið,“ segir Katrín.

Það væri lýsandi fyrir Ardern að koma hreint fram með ástæður afsagnarinnar og það væri sjónarsviptir að henni.
„Já, ég myndi segja það. Auvitað við seme rum bæði kvenleiðtogar, það munar um hverja og eina því ekki erum við nú margar, og svo hefur hún staðið fyrir pólitík sem mér hefur þótt vera framsækin og flott pólitík,“ segir Katrín.
Ardern væri sjarmerandi og gaman að tala við hana.
„Svo höfum við átt gott samstarf first og fremst á sviði velsældarhagkerfa. Ísland, Nýjasjáland og Skotland hafa verið saman í verkefni og svo hafa fleiri ríki verið að bætast í það. Þar hefur hún verið ötull talsmaður þess að við metum samfélag okkar út frá öðrum mælikvörðum en bara hinum efnahagslegu og leggjum áherslu á velferð í öllu sem við gerum,“ segir Katrín Jakobsdóttir.