Stóra-Laxá ruddist niður farveg sinn af miklum krafti upp úr hádegi ef marka má frásagnir viðstaddra og myndskeið sem sjá má í spilaranum hér að neðan:
Þegar veðurspár gáfu til kynna að verulega myndi hlýna í veðri í gær, með tilheyrandi hættu á að Stóra-Laxá myndi ryðjast fram, var ákveðið að rjúfa veginn við brúna sem er nú í smíðum. Það var gert á fimmtudag og Magnús Hlynur var að sjálfsögðu á staðnum.
Jóhann Þ. Jóhannsson, verkstjóri hjá Ístaki við Stóru-Laxá, var nýkominn heim til sín, eftir að hafa varið nóttinni við brúna, þegar áin ruddist fram. Hann segir í samtali við fréttastofu að hann hafi þegar rætt við þann sem sér um jarðvinnu við framkvæmdirnar.
Sá segi að það hafi skipt sköpum að ákveðið hafi verið að rjúfa veginn. Það hafi einfaldlega bjargað brúnni.
„Þetta var mjög tæpt. Maður sér það á myndum að rétt seytlaði undir brúna, þegar mesta gusan kom,“ segir Jóhann.