Það var nokkrum dögum fyrir jólin árið 2020 sem nokkrar aurskriður féllu á Seyðisfjörð með hræðilegum afleiðingum.
Horfði á húsið sitt hverfa inn í drullumóðuna
Aðalheiður Borgþórsdóttir, atvinnu- og kynningarfulltrúi Múlaþings og íbúi í húsinu Múla, segir frá því að þann 18. desember hafi hún lagt leið sína niður í Ferjuhús að sinna verkefnum.
Nóttina áður hafði aurskriða rifið með sér mannlaust hús, Breiðablikshúsið. Rétt áður en Aðalheiður fór í vinnuna ræddi hún við eiginmann sinn og tvo syni.
„Ég var svona að segja þeim að ég hefði nú heyrt að það væri einhver sprunga fyrir ofan húsið hjá okkur og þeir ættu nú kannski að fara að drífa sig.“
Það var svo um þrjúleytið þennan sama dag sem stór aurskriða féll á bæinn. Aðalheiður lýsir því hvernig hún hafi horft á húsið sitt hverfa.
„Það var náttúrlega rosalegt sjokk. Húsið hverfur bara í drullumóðuna. Þannig að þeir voru inni þegar þetta gerist og ég horfi á. Það var bara alveg eins og maður væri að missa þá.“

„Fjallið bara öskrar“
Davíð Kristinsson, slökkviliðsmaður hjá Slökkviliði Seyðisfjarðar, var einn af þeim fjölmörgu viðbragðsaðilum sem voru á vettvangi.
„Ég sé að hlíðin er að koma niður. Það er ekki að koma skriða niður, hlíðin er bókstaflega að koma niður og fjallið bara öskrar. Þá horfi ég inn á svæðið og sé að það er mjög mikið af fólki þar og hús ennþá uppi standandi. Þannig að ég fikra mig alltaf nær og sé að það er opin leið inn á svæðið. Þar er fjölskyldan að koma út sem býr í Múlanum. Ég bendi þeim bara á hvert þau eiga að fara,“ segir hann.
„Mér fannst það vera heil eilífð en þeir komu bara allt í einu hlaupandi út úr svona einhvern veginn drullunni. Það vissi auðvitað engin hverjir, hvort að fólk hefði látist eða ekki. Þannig það var bara kaos,“ segir Aðalheiður.