Ólafur Örn Bragason, yfirmaður menntamála lögreglunnar segir mikla þjálfun framundan í notkun rafvopna. Hann segir óljóst á þessari stundu í hve miklum mæli lögregla mun þurfa að beita vopnunum.
„Reynslan í Noregi sýnir fram á að þeir nota rafvarnarvopn sjaldnar en kollegar þeirra í Svíþjóð og Finnlandi. Ég geri ráð fyrir því að þessu verði ekki oft beitt hér á landi. Ef við tökum mið af kannski öðrum valdbeitingartækjum eins og piparúða, sem er á bilinu tuttugu til þrjátíu tilfelli á ári sem verið er að beita því yfir allt landið og kannski tíu til fimmtán sinnum sem kylfu er beitt. Þannig þá myndi maður gera ráð fyrir því að þetta væri, án þess að ég sé að hengja mig upp á það, þá væri þetta svona undir tíu skipti á ári sem þessu væri beitt.“
Þá hefur borið á áhyggjum af því að lögreglufulltrúar geti illa borið kennsl á þá sem þola ekki að vera beittir þessum vopnum. Ólafur segir að sérstaklega verði hugað að þessu í þjálfun þeirra.
„Þetta er auðvitað partur af stærri þjálfun. Samskiptafærni er náttúrulega númer eitt, tvö og þrjú og samvinna. Það er það sem lögreglumenn leitast alltaf eftir. Síðan er það mat lögreglumanna hverju sinni hvaða valdbeitingartæki þeir þurfa að grípa til ef þeir þurfa að grípa til þeirra tækja. Það sama á við um einstaklinga sem eru í áhættuhópi. Þá eru öll valdbeitingartæki lögreglu, hvort sem það er piparúði, kylfa eða skotvopn að þá reynir maður alltaf að beita minnsta mögulega valdi í hvert sinn.“