Þetta er á meðal þess sem kemur fram í fylgiskjölum með fundargerð borgarráðs Reykjavíkurborgar frá því í gær. Þar var deiliskipulagstillaga sem gerir ráð fyrir að lóðir umræddra fasteigna stækki tekin fyrir, og samþykkt.
Töluvert hefur verið fjallað um málið, sem snýst í stuttu máli um það á sínum tíma reistu eigendur húsa við Einimel 22 til 26 girðingu við lóðir sínar sem ganga að verulegu leyti inn á almannarými.
Umhverfis- og skipulagsráð borgarinnar samþykkti í síðustu viku deiliskipulagstillögu sem kynnt var sem lausn á málinu. Hún fól í sér að eigendum einbýlishúsa við Einimel 18-26 var boðið að kaupa hluta af því svæði sem um ræðir og lóðirnar stækkaðar til samræmis við það. Eigendur Einimels 18, 24 og 26 gengu að tilboðinu. Tillagan felur einnig í sér að umræddar girðingar verða fjarlægðar.
Það þýðir að lóðir húsanna við Einimel 18, 24 og 26 munu stækka. Lóðin við Einimel 18 fer úr 640 fermetrum í 687 fermetra. Lóðin við Einimel 24 fer úr 690 fermetrum í 769 fermetra og lóðin við Einimel 26 fer úr 689 fermetrum í 799 fermetra. Samtals stækka lóðirnar því um 236 fermetra. Borgarlandið minnkar til samræmis við það.
Tveir óháðir fasteignasalar gerðu verðmat
Borgarráð tók deiliskipulagstillöguna fyrir á fundi í gær. Þar var tillagan samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa meirihlutans gegn þremur atkvæðum fulltrúa minnihlutans.
Einnig voru lagðir fram samningar við eigendur Einimels 18,24 og 26 þar sem fram kemur á hvaða verði viðskiptin fara fram.

Þar segir að meðalverð á fermetra sé 67.897 kr sem fengið hafi verið með mati tveggja óháðra fasteignasala. Endanlegt kaupverð miðast þó við endanlega stækkun lóðar.
Lóðin við Einimel 26 stækkar mest, eða um 110 fermetra. Þar er kostnaður við stækkunina metin á 68.313 krónur á fermetra, eða samtals 7,5 milljónir króna. Er það verðið sem eigendur Einimels greiða fyrir stækkunina.

Lóðin við Einimel 24 stækkar um 79 fermetra. Þar er kostnaður við stækkunina metin á 67.184 krónur á fermetra, eða samtals 5,3 milljónir króna.
Lóðin við Einimel 18 stækkar um 47 fermetra. Þar er kostnaður við stækkunina metin á 68.192 krónur á fermetra, eða samtals um 3,2 milljónir króna. Samtals fær borgin því rétt rúmar sextán milljónur í sinn hlut fyrir borgarlandið.
Allir samningarnir þrír eru gerðir með fyrirvara um að deiliskipulagstillagan verði endanlega samþykkt. Eftir samþykkt borgarráðs í gær bíður hún nú borgarstjórnar til endanlegrar samþykktar.