Í þessar frétt er fjallað um úrslitin í Idol þættinum á föstudag svo ef þú hefur ekki horft á þáttinn þá skaltu ekki lesa áfram.
Í Idol söng Bía stórar ballöður og erfið lög í hverri viku. Á föstudag söng hún „Í síðasta skipti“ eftir Friðrik Dór Jónsson og Fleetwood Mac lagið „Dreams“ sem er í miklu uppáhaldi hjá henni. Það dugði þó ekki og eftir símakosningu var ljóst að Bía komst ekki í úrslitaþáttinn sem fram fer næsta föstudag.
Bía ætlar að nota Idol sem stökkpall út í tónlistina og hefur mikinn áhuga á því að gefa út eigin plötu. Hún vonar því að hún geti farið að semja „helling af lögum“ núna.
„Ég á erfitt með að semja. Ég þarf hjálp við það. Það væri geggjað ef einhver sem er ógeðslega góður í því sem væri til í að gera það með mér, þá get ég það,“ sagði Bía.
Hún ræddi framtíðarplönin við Ásu Ninnu og Svavar í Bakaríinu á Bylgjunni. Viðtalið má heyra í spilaranum hér fyrir neðan. Með henni í þættinum var Símon Grétar sem datt einnig út í undanúrslitaþættinum á föstudag.
„Við erum öll að styðja hvert annað og peppa hvert annað ótrúlega mikið,“ sagði Bía meðal annars um stemninguna í keppendahópnum.