Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík fór fram á laugardaginn á Hótel Natura í Reykjavík. Tvö hundruð gestir voru á hátíðinni þar sem 26 nýsveinar í sextán iðngreinum voru verðlaunaðir fyrir frábæran árangur á sveinsprófi.

Á hátíðinni var Valbjörg Erla Haraldsdóttir hársnyrtimeistari útnefnd heiðursiðnaðarmaður ársins en hún hefur lagt sig fram við að efla og greiða vegferð iðn sinnar í áratugi.
Þá var Böðvar Páll Ásgeirsson gerður að heiðursfélaga Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík fyrir óeigingjarnt og langt starf í þágu félagsins.

Nemastofa atvinnulífsins tók þátt í athöfninni með því að veita þremur fyrirtækjum sem hafa náð góðum árangri í þjálfun og kennslu nema á vinnustað sérstaka viðurkenningu fyrir framlag þeirra og stuðning við starfsmenntakerfið. Fyrirtækin sem fengu viðurkenningu voru HD, Klipphúsið og SOS lagnir.