Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt frá Sundahöfn í Reykjavík í dag þar sem verið var að búa tvö skip Brims til loðnuveiða, Víking og Venus.
„Nú er bara vertíðin að fara á fullt. Loksins kominn rétti tíminn. Víkingur fer út núna á eftir,“ sagði Garðar Svavarsson, forstöðumaður uppsjávarsviðs Brims í viðtali á Skarfabakka.

„Nú er komið að kallinu,“ sagði Róbert Hafliðason, stýrimaður á Víkingi, og sagði menn spennta.
„Það er alltaf spenna að byrja á nótinni,“ sagði hann.
Lykilatriði er að ná loðnunni sem verðmætastri.
„Það styttist núna í að hún nái fullum þroska fyrir Japansmarkað. Svo þurfum við að bíða aðeins lengur eftir að við getum farið að vinna hrogn úr henni,“ sagði Garðar.
Þetta snýst um hrognaprósentu.
„Hún var ekki nógu há, hrognaprósentan, þarna norðar, sögðu þeir. Hún er eitthvað hærri þarna sunnar,“ sagði Róbert.

„Veðrið er bara að stríða okkur, þessa dagana. En það er bara eins og alltaf,“ sagði Garðar.
-Hvert á svo að fara?
„Við ætlum að drífa okkur allavega austur, fyrir brælu. Reyna að komast þangað. Svo verður bræla, held ég, fram á sunnudag, eða eitthvað.
Það eru alltaf brælur í kortunum. Það er bara lægðagangur og ógeð,“ sagði stýrimaðurinn Róbert.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 fyrir jól um fyrstu loðnufarma vertíðarinnar: