Kanadísku landsliðskonurnar sendu frá sér yfirlýsingu þar sem þær útskýrðu ástæðurnar fyrir því að þær hættu við verkfallið.
Kanadíska liðið er að fara að keppa í SheBelieves æfingamótinu í landsleikjaglugganum sem hófst í dag.
Kanadísku landsliðskonurnar eru mjög ósáttar með fréttir af niðurskurði hjá kvennalandsliðinu en framundan er heimsmeistaramót í sumar. Þær heimta jafnrétti á milli landsliða kynjanna og að bætt verði við frekar en skorið niður.
Eftir að kanadísku leikmannasamtökin fóru á fund með knattspyrnusambandinu um helgina kom í ljós að sambandið ætlaði í hart til að þvinga leikmennina úr verkfalli.
Það gerði sambandið með því að hóta málshöfðun og að hver og einn leikmaður yrði gerður skaðabótaskyldur fyrir milljónum kanadíska dollara.
Leikmenn, sem enn hafa ekki fengið neinar greiðslur frá sambandinu fyrir árið 2022, töldu sig ekki hafa efni því að hætta á því að fá á sig stórar skaðabótakröfur vegna þessa máls.
Þær ætla því að mæta á æfingu kanadíska landsliðsins í dag. Hér fyrir neðan má sjá yfirlýsinguna.