Heimildarmyndin Navalny er tilnefnd til Bafta verðlauna í flokki heimilda. Christo Grozev, fréttamaður sem fjallað hefur mikið um Alexei Navalní og baráttu hans við rússnesk stjórnvöld, er áberandi í heimildarmyndinni. Grozev sagði á Twitter á föstudag að honum og fjölskyldu hans hefði verið meinað að mæta á verðlaunaafhendingu Bafta.
I was surprised to discover that my whole family and I have all been banned by British police from attending this weekend's BAFTA awards where the documentary #Navalny is nominated. The reason stated: we "represent a public security risk". (1/3)
— Christo Grozev (@christogrozev) February 17, 2023
Hann segir skipuleggjendur atburðarins hafa sagt að viðvera fjölskyldunnar myndi vera ógn við almenning. Það segir Grozev hafa komið sér á óvart og að hann skilji ekki hvernig börnin hans geta verið ógn við almenning.
Þá segir hann mætingarbannið vera alvarlega aðför að frelsi blaðamanna.
Flúði Austurríki fyrir skömmu
Grozev hefur ekki bakað sér miklar vinsældir stjórnvalda í Kreml með umfjöllun sinni um Navalní og fleiri rússneska andófsmenn. Hann fjallaði meðal annars ítarlega um eitranir með taugaeitrinu Novichok árið 2018.
Hann tilkynnti í janúar að hann hefði neyðst til að flýja heimili sitt í Austurríki eftir að hafa fengið fjölda viðvarana frá stjórnvöldum um að hann væri í hættu. Hann býr núna ásamt fjölskyldu sinni í Bandaríkjunum, að því er segir í umfjöllun New York Times um málið.