Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að með samningnum sé borgin að svara ákalli um bættar samgöngur í miðbænum um helgar. Ekki hafi náðst samstaða í stjórn Strætó um að hefja aftur akstur næturstrætó á höfuðborgarsvæðinu. Því hafi Reykjavíkurborg lagt fram tillögu fyrir stjórn Strætó um þjónustu fyrir íbúa borgarinnar og um að bjóða upp á næturstrætó sem eingöngu gengur í Reykjavík.
Stjórn Strætó hafi samþykkt þessa tillögu en allur kostnaður muni falla á Reykjavíkurborg.
Fjórar leiðir eknar eftir óhefðbundinni áætlun
Strætó verður ekið fjórar leiðir í úthverfi borgarinnar, Breiðholt, Úlfarsárdal, Norðlingaholt og Grafarvog, aðfaranætur laugardags og sunnudags.
Ekki verður ekið samkvæmt hefðbundinni áætlun. Eingöngu verður gefinn upp brottfaratími úr miðbænum og vagnarnir aka inn í hverfin án þess að tímajafna.
Aðeins verður hægt að taka næturstrætó á leið úr miðbænum en ekki til baka í átt að miðbænum.
Tvöfalt fargjald og engir posar
Stakt fargjald í næturstrætó verður 1.100 krónur, en það jafngildir tvöföldu fargjaldi. Hægt verður að kaupa sérstaka næturmiða í Klapp greiðslukerfinu en eftir sem áður munu handhafar mánaðar- og árskorta geta notað kortin sín um borð í næturstrætó.
Farþegar munu þurfa að reiða sig á Klappið þar sem ekki verður hægt að greiða fargjald með greiðslukorti. Þó verður hægt að greiða með reiðufé.