Mary Earps var í gær kosin besti markvörður heims á árinu 2022 á verðlaunahátíð Alþjóða knattspyrnusambandsins.
Fyrir aðeins einu og hálfu ári síðan stóð Earps hins vegar á tímamótum og var mikið að íhuga það að leggja fótboltaskóna á hilluna.
Hún var vissulega leikmaður Manchester United en fékk fá tækifæri með enska landsliðinu og óttaðist það að steypa sér í skuldir ætlaði hún að halda áfram að spila fótbolta.
Það var aftur á móti koma hinnar hollensku Sarinu Wiegman í þjálfarastól enska landsliðsins sem breytti öllu fyrir Earps.
Wiegman sannfærði markvörðinn um að halda áfram og launaði henni það strax. Sarina tók við enska landsliðinu í september 2021 og setti Earps strax í byrjunarliðið sitt.
Síðan þá hefur Earps verið fastamaður í byrjunarliði enska landsliðsins og hefur spilað 23 landsleiki síðan.
Hún varði auðvitað mark enska landsliðsins síðasta sumar þegar liðið varð Evrópumeistari á heimavelli og vann fyrsta titil ensk fótboltalandsliðs frá árinu 1966.
Í gær var hún síðan kosin besti markvörður heims af FIFA.