Moai-stytturnar á Páskaeyju eru á heimsminjaskrá Unesco en talið er að frumbyggjar eyjunnar hafi skorið þær í steina á 13. til 15. öld. Stytturnar eru mismunandi í stærð en eru að meðaltali fjórir metrar á hæð og eru 13,8 tonn að þyngd.
Til eru rúmlega þúsund styttur á sílesku eyjunni en undir lok febrúar fannst ný stytta. Hún fannst í gíg á Rano Raraku-eldfjallinu. Til margra ára hafði verið lítið stöðuvatn í gígnum en árið 2018 þornaði það alveg upp.
Ekki er vitað hvenær styttan var sett ofan í vatnið en hún fannst þegar verið var að lagfæra votlendið við gíginn. Styttan verður ekki færð heldur geymd ofan í gígnum þar sem hún fannst.
