Sigurlaug vildi meðal annars fá að vita hver væri fyndnust í íslenska kvennalandsliðinu í handbolta.
„Ég var ekki lengi að finna það svar: Thea,“ sagði Andrea Jacobsen og nefnir þar örvhentu stórskyttu liðsins Theu Imani Sturludóttur.
„Er hún fyndin,“ spurði Sigurlaug strax.
„Hún er sprenghlægileg og sérstaklega þegar Birna Berg (Haraldsdóttir) er í hóp líka. Þær tvær saman er litla kombóið. Þær eru alveg sjúklega fyndnar,“ sagði Andrea.
„Það kemur mér pínu skemmtilega á óvart því ég þekki hana ekki neitt. Það er bara geggjað,“ spurði Sigurlaug strax.
„Við vorum í einhverju landsliðsverkefni og allt í einu heyri ég eitthvað öskur fram á gangi. Þá kíki ég fram og þá er Thea að kasta svona Burrito dóti í Birnu og Birna er bara hlaupandi. Þá var þetta einhver Burrito leikur sem þær voru að spila,“ sagði Elín Jóna Þorsteinsdóttir.
„Ég veit ekki hvort við vorum í Póllandi eða annars staðar en Hafdís markvörður er vegan. Við fengum einhverja súpu í hádeginu eða í kvöldmat sem var pínu vafasöm. Þau sögðu aftur og aftur: Þetta er vegan,“ sagði Andrea og hélt áfram:
„Svo gera þær tvær símaat í Hafdísi upp á herbergi. Birna Berg með einhvern svakalegan hreim. Sagði að það hafi verið rjómi eða ostur eða eitthvað í súpunni. Hafdís greyið var alveg í áfalli og þær halda áfram með þennan brandara og síðan fer allt í háaloft. Svo deyja allar úr hlátri,“ sagði Andrea.
Það má hlusta á allan þáttinn hér fyrir neðan en spjallið um hina fyndnu Theu hefst eftir 36 mínútur.