Önnur fyrirspurnin er nokkuð yfirgripsmikil og varðar fjölda bréfa og gagna sem gengið hafa á milli þingforseta og stjórnvalda. Þar er jafnframt spurt um samantekt sem fyrrverandi ríkisendurskoðandi sendi forsætisnefnd og hefur að geyma athugasemdir við skýrslu Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol frá 2020.
Hin fyrirspurnin er í þremur liðum, svohljóðandi:
- 1) Hefur forseta borist bréf frá settum ríkisendurskoðanda, dags. 27. júlí 2018?
- 2) Telur forseti að varðveisla bréfsins hjá Alþingi falli undir verksvið hans sem forseta samkvæmt 9. gr. þingskapalaga þar sem fram kemur að forseti fari með æðsta vald í stjórnsýslu Alþingis?
- 3) Telji forseti varðveislu bréfsins hjá Alþingi ekki falla undir verksvið hans samkvæmt 9. gr. þingskapalaga, getur forseti upplýst hvort og þá á hvaða lagagrundvelli hann telur sér heimilt að takmarka aðgang þingmanna að efni bréfsins og fylgiskjali sem því kann að hafa fylgt?
Nú mun það koma til kasta forseta Alþingis að ákveða hvort fyrirspurnin skuli leyfð. Ef ekki gæti aftur komið til atkvæðagreiðslu í þingsal, en þingmenn eiga rétt á að bera synjun forseta undir atkvæði.
Trúir því varla að stjórnarflokkarnir leiki aftur sama leik
Jóhann segir í samtali við fréttastofu að hann trúi því varla að málið fari í sama farveg og áður.
„Ég vil helst ekki trúa því að stjórnarflokkarnir leiki aftur sama leikinn og stöðvi fleiri fyrirspurnir í krafti meirihlutavalds, en hvað veit maður.“
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kvað upp úrskurð í gær þar sem Lindarhvoli ehf. var gert að afhenda lögfræðiálit um birtingu greinargerðar setts ríkisendurskoðanda.
Sjá nánar: Lindarhvoli ber að afhenda álitsgerð MAGNA um félagið
Jóhann bendir á að samkvæmt úrskurðinum megi ekki synja almenningi um aðgang að lögfræðiálitinu á grunni 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, þ.e. á þeim forsendum að um sé að ræða bréfaskipti í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli.
„Þetta er athyglisvert í ljósi þess að yfirstjórn Alþingis synjaði einmitt fjölmiðli um aðgang að lögfræðiálitinu með vísan til sama lagaákvæðis, á þessum sömu forsendum sem eru augljóslega rangar,“ segir Jóhann og bætir við:
„Það kemur mjög skýrt fram í lögskýringargögnum frá því að upplýsingalög voru sett á sínum tíma að þessi tiltekna undanþága frá upplýsingarétti, um bréfaskipti vegna réttarágreinings eða dómsmáls, „tekur […] ekki til álitsgerða eða skýrslna sérfræðinga sem aflað er við meðferð stjórnsýslumála almennt. Þess vegna er ekki hægt að skýla sér á bak við hana. Alþingi og almenningur eiga rétt á að vita hvað stendur þarna.“
Jóhann segir að svo virtist sem að yfirstjórn Alþingis hafi túlkað upplýsingalög með þrengri hætti en efni standa til.
„Eðlilegast væri að forseti Alþingis birti strax lögfræðiálitið eins og fjöldi þingmanna hefur kallað eftir“