Skrifað var undir samning sjómanna og SFS í húsakynnum ríkissáttasemjara þann 9. febrúar síðastliðin og vakti samningurinn strax sérstaka athygli fyrir þær sakir að hann var gerður til tíu ára en það telst harla óvenjulegt. Sjómenn hafa verið samningslausir í þrjú ár en þar til nýr kjarasamningur verður samþykktur er sá eldri í gildi.
Bergur Þorkelsson, formaður sjómannafélags Íslands segir það hafa verið fyrirséð að samningurinn yrði felldur.
„Það voru þarna þónokkur atriði. Það var tímalengd samningsins, veiking slysa og veikindaréttar. Það má nefna breytingar á texta í grein um ný skip og breytt skip. Svo var lækkuð skiptaprósenta til þess að fá mótframlag í lífeyrissjóð upp á 3,5% þá myndi skiptaprósenta lækka á móti.“
Tímalengdin hafi þó verið helsta áhyggjuefni sjómanna.
„Það kom strax. Eins og margir sögðu við mig þá kveikti það á varúðarperum hjá mörgum þegar þeir sáu tímalengdina. Þá stoppuðu menn strax við og fóru að hugsa að þetta væri ekki í lagi. Vegna þess að ef það gerist eitthvað á þessum tíma þá geturðu ekki gripið inní. Það eitt og sér felldi samninginn.“
Þá hafi veiking slys- og veikindaréttar verið of stór biti til þess að kyngja.
„Veiking á slysa- og veikindarétti sjómanna í flestum tilvikum. Nema í þeim tilvikum þegar menn eru í launakerfi sín á milli, það er að segja ef þeir lána hvor öðrum pening og fá alltaf laun. En í öllum öðrum tilvikum þá veikja menn slysa- og veikindaréttinn sinn. Þeir sem eru með tímabundna ráðningu eða eru ráðnir í einn túr eiga engan rétt gagnvart útgerð í mörgum tilvikum.“