Ákvörðunin var tekin í síðustu viku af stjórn Menningar- og safnastofnunar Fjarðabyggðar. Talsverðar skemmdir urðu á aðalsýningarhúsi safnsins, auk þess sem tveir braggar sem stóðu á sýningarsvæðinu eyðilögðust. Greint var frá lekanum hér á Vísi í janúar.
Venjulega er safnið opið frá byrjun júnímánaðar til loka ágúst. Búið er að fjarlægja braggana sem eyðilögðust en þeir voru frá stríðstímanum.
„Ekki verður hægt að endurbæta húsnæði safnsins fyrir sumarið 2023 og því var þessi ákvörðun tekin en jafnframt var forstöðumanni safnastofnunar falið að skoða útfærslu á sýningu á Reyðarfirði fyrir sumarið 2023 og er von á tillögum varðandi það á næstunni,“ segir í tilkynningu frá Fjarðabyggð.
Kristján Már Unnarsson, fréttamaður okkar, heimsótti safnið í fyrrasumar.