Jón og Sigurjón hafa verið með útvarpsþáttinn Tvíhöfða nær óslitið frá 1996 og hefur þátturinn birst á hinum ýmsu rásum í gegnum tíðina. Síðastliðið sumar var tilkynnt að Tvíhöfði yrði ekki áfram á dagskrá Rásar 2.
Þögnin varði þó ekki of lengi því í febrúar var greint frá því að Tvíhöfði myndi snúa aftur í hlaðvarpsformi sem þeir hafa gert á hlaðvarpsveitunni Tal. Einnig verður þáttunum útvarpað í beinni á X-977 tvo föstudaga í mánuði.
Sprungu úr hlátri
Við gerð síðasta þáttar af Tvíhöfða áttu sér stað ansi fyndin mistök. Sigurjón og Jón voru þá að taka upp liðinn Smásálin þar sem Sigurjón svarar símtölum frá Jóni er hann leikur ýmsa karaktera. Einn þeirra er til að mynda Umferðar-Einar.
Í upptökum fyrir síðasta þátt gerði Sigurjón ráð fyrir að hann væri að tala við Einar en svo var ekki. Við það sprungu bæði Sigurjón og Jón úr hlátri. „Hver er þetta þá?“ náði Sigurjón að koma út úr sér í gegnum hláturinn. „Ætlum við þá að byrja aftur?“ sagði hann svo en hvorugum þeirra tókst að hafa hemil á hlátrinum.
Þetta sprenghlægilega atviki má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan.