Staðan í íslenskum efnahagsmálum er á vissan hátt þversagnakennt. Á sama tíma og allt er á blússandi uppsiglingu og skortur á vinnuafli vegna mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna eftir hrun ferðaþjónustunnar í covid faraldrinum og auknum útflutningsverðmætum almennt, hringja viðvörunarbjöllur.

Verðbólga er þrálát ekki bara hér á Íslandi, heldur einnig á helstu viðskiptasvæðum landsins í Bandaríkjunum, á Evrusvæðinu og í Bretlandi. Seðlabankinn hefur vegna þessa hækkað meginvexti sína ellefu sinnum í röð frá árinu 2021 og eru þeir nú komnir í 6,5 prósent. Seðlabankar annarra ríkja hafa sömuleiðis hækkað sína vexti eins og sjá má í Bandaríkjunum, hjá Englandsbanka og Seðlabanka Evrópu.

Í fyrra jók Seðlabankinn eiginfjárkröfu vegna íbúðarkaupa. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri greindi frá því í dag að bankinn bætti nú við enn einu úrræðinu með hækkun sveiflujöfnunarauka bankanna úr 2 prósentum í 2,5 prósent.
„Sem bæði ætti að hægja á bankakerfinu að lána út og einnig ættu þeir að búa í haginn ef það verður hörð lending í efnahagslífinu eftir ár eða tvö. Sveifluaukinn hefur aldrei verið hærri. Núna er hann í 2,5 prósentum sem bætist við eiginfjárkröfu bankanna. Þannig að það er líka ákveðin áminning til þeirra um að eiga nægilegt eigiðfé,“ segir Ásgeir.

Engu að síður telur fjármálastöðugleikanefnd íslenska fjármálakerfið standa traustum fótum. Aftur á móti fari fjármálaskilyrði heimila og fyrirtækja versnandi vegna mikillar verðbólgu og hærri vaxta. Þeir hafi verið hækkaðir til að draga úr neyslu sem meðal annars hafi sýnt sig í því að spenna hafi minnkað undanfarið á húsnæðismarkaði.
Engu að síður gerir Seðlabankinn ráð fyrir fjölgun nýrra íbúða á þessu ári og næsta miðað við árið í fyrra. Allar miða aðgerðir Seðlabankans að því að draga úr neyslu.
Svo ég tali nú kannski bara og noti líkingarmál sem þú hefur notað, að það fækki tásumyndum frá Tenerife?
„Almennt séð erum við að vona það. Það sem gerðist að nokkru leyti er að fólk neyddist til að spara þau tvö ár sem faraldurinn var og hefur núna pening til að eyða. Við álítum reyndar að neyslan, að það sé að draga úr henni, þetta sé að ná hámarki. Á þessum tíma, miðað við hvað það er mikil þensla í efnahagskerfinu, viljum við að allir hægi á sér,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri eftir kynningu á fyrsta riti Fjármálastöðugleika á þessu ári.