Sævar Atli hefur spilað mjög vel að undanförnu og er stór ástæða þess að Lyngby á óvænt möguleika á að halda sæti sínu í dönsku úrvalsdeildinni eftir ömurlega byrjun á tímabilinu. Liðið hefur aðeins tapað einum af síðustu sex leikjum sínum.
Sævar Atli var á sínum stað þegar Lyngby mætti AC Horsens í sannkölluðum sex stiga leik í gær, sunnudag. Því miður fyrir framherjann úr Breiðholti sem og Lyngby þurfti hann að yfirgefa völlinn þegar rétt rúmur stundarfjórðungur var liðinn.
Sævar Atli fékk þungt höfuðhögg og virtist ekki líklegt að hann yrði með íslenska landsliðinu í komandi verkefni gegn Bosníu-Hersegóvínu og Liechtenstein.
Umboðsmaðurinn Magnús Agnar Magnússon hefur nú staðfest að Sævar Atli er klár í slaginn þó vígalegur sé eftir að sauma þurfti saman sárið sem opnaðist á höfði hans.
„Átta spor og enginn heilahristingur. Klár með íslenska landsliðinu. Stríðsmaður,“ skrifaði Magnús Agnar á enski í færslu á Twitter-síðu sinni. Lyngby tók í sama streng á Twitter-síðu sinni og talaði um „íslenska víkinginn.“
Sævar Atli Magnússon got heavy knock on the head, 8 stiches & no concussion. Ready for the Icelandic national team! Warrior pic.twitter.com/4aGQyAFFp0
— Magnus Agnar Magnusson (@totalfl) March 19, 2023
Sævar Atli á að baki 2 A-landsleiki fyrir Íslands hönd en gæti á næstu dögum leikið sína fyrstu mótsleiki fyrir liðið.
Ísland hefur leik í undankeppni EM 2024 þann 23. mars næstkomandi gegn Bosníu-Hersegóvínu. Þremur dögum síðar fer leikur Íslands og Liechtenstein fram. Báðir leikirnir fara fram ytra.