Rétt eftir klukkan sex í morgun féll snjóflóð rétt utan við Neskaupstað, og rétt um sjö féll annað flóð. Seinna flóðið féll á nokkur hús. Þriðja flóðið féll svo úr Bakkagili.
Ljóst er að eitt af flóðunum skall á nokkrum íbúðarhúsum við göturnar Starmýri og Hrafnsmýri, utarlega í bænum. Talið er að um tíu manns hafi slasast þegar rúður sprungu og snjór fór inn í húsin. Enginn er þó alvarlega slasaður.

Umfangsmikil rýming hefur staðið yfir í dag, bæði í Neskaupsstað og á Seyðisfirði, þar sem um 160 hús hafa verið rýmd vegna snjóflóðahættu. Að auki hefur verið ákveðið að rýma á ákveðnu svæði á Eskifirði. Búið er að opna fjöldahjálparstöð í Egilsbúð í Neskaupsstað og Herðubreið á Seyðisfirði. Óvíst er á þessu stigi hversu lengi rýmingin varir.
Neyðarstigi Almannavarna hefur verið lýst yfir í Neskaupstað. Nokkuð fjölmennt lið björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila er á leið austur til að aðstoða og til að vera til taks ef á reynir.
Ertu með myndir af vettvangi? Endilega sendu okkur á ritstjorn@visir.is.
Fylgst verður með helstu vendingum í vaktinni hér að neðan. Smellið á F5 eða endurhlaðið síðuna ef vaktin birtist ekki hér að neðan.