Fyrsti viðkomustaður ferðarinnar er í kirkjugarðinn í Gaulverjabæ í Flóa þar sem Ásgrímur hvílir en hann fæddist 1876 á bænum Suðurkoti í Rútsstaðahverfinu í Flóa og dó 1958. Því næst er stoppað á skógræktarsvæðinu Timburhólum skammt frá fæðingarstað Ásgríms og minnismerki um hann skoðað þar. Því næst er farið í Listasafn Árnesinga í Hveragerði þar sem að um 20 verk Ásgríms eru til sýnis. Ferðin endaði svo í Húsinu á Eyrarbakka þar sem sérstök sýning um Ásgrím var opnuð í gær.

Fararstjóri í ferðinni var Hannes Stefánsson, sem er mjög fróður um Ásgrím og hans störf.
„Og ég man eftir því 1958 þegar hann var jarðaður, hann átti engin ættmenni hérna, þannig að ég veit ekki hverjir fóru við jarðarförina en sveitungarnir leyfðu sér að gera grín að þeim, sem mættu við jarðarförina, að elta þetta listasnobb,“ segir Hannes.

Ásgrímur ánafnaði íslensku þjóðinni öll sín verk, ásamt húseign að Bergstaðastræti 74 í Reykjavík þar sem hægt er að skoða verk hans.
„Við gripum þetta núna, við í Listasafni Árnesinga og á Byggðasafninu ákváðum að gera eitthvað á þessum afmælisári, við erum 60 ára og Byggðasafnið 70 ára. Okkur fannst bara tilvalið að minna fólk á þennan merka listamann,“ segir Kristín Scheving, safnstjóri Listasafns Árnesinga í Hveragerði.
Heldur þú að þessi leið eigi eftir að slá í gegn?
„Nú þegar er allavega verið að bóka mjög mikið í þessar ferðir, við vonum það, okkur finnst Ásgrímur eiga mikið inni,“ bætir Kristín við.

Sýningin um Ásgrím í Húsinu á Eyrarbakka heitir „Drengurinn, fjöllin og húsið“.
„Hún fjallar um æsku og uppvöxt hans í Flóanum í Gaulverjabæjarhreppi og síðan um árin hans hér í Húsinu en hann var vikapiltur hér í tvö og hálft ár. Ásgrímur var mjög merkilegur maður, brautryðjandi, einn af okkar fyrstu listmálurum og sá fyrsti, sem gerir málarastarfið að ævistarfi,“ segir Ragnhildur Elísabet Sigfúsdóttir, safnvörður hjá Byggðasafni Árnesinga.
Heimasíða Byggðasafns Árnesinga