Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia. Hægt er að bóka bílastæði á vefsíðu Keflavíkurflugvallar og tryggja þannig stæði um páskana. Með því að bóka stæðið tímanlega bjóðast betri kjör en þegar greitt er við hlið. Þeim mun fyrr sem stæðið er bókað, þeim mun betri kjör fást.
Farþegar eru hvattir til að mæta snemma í flug þar sem töluverð umferð verður um Keflavíkurflugvöll fyrir og um páskahátíðina.
Farþegar eru einnig hvattir til að nota sjálfsafgreiðslustöðvar til að innrita sig í flug eftir því sem hægt er. Opnað er fyrir innritun í flug kl. 03:45 að morgni og öryggisleit er opnuð kl. 04:00.
Til að auka þjónustu og þægindi farþega á Keflavíkurflugvelli er nú einnig hægt að bóka fyrir fram ákveðinn tíma í öryggisleit og fara fram fyrir röð farþegum að kostnaðarlausu. Með þessu geta farþegar notið ferðalagsins og þess sem flugstöðin hefur upp á að bjóða frekar en að bíða í röð.
Auk bílastæðaþjónustu standa farþegum til boða aðrar samgönguleiðir til og frá Keflavíkurflugvelli. Þar má nefna ferðir með bílaleigubílum, leigubílum, rútum eða strætisvögnum.