Í fundargerð fyrir fund bæjarstjórnar sem haldinn var þann 3. apríl síðastliðinn segir að tilboðin hafi verið fimm talsins og hljóðað upp á frá rúmlega 1,2 milljarða króna til ríflega 2,4 milljarða króna.
Kostnaðaráætlun fyrir verkið hafi verið 1,1 milljarður króna. Einungis munar 132 milljónum á kostnaðaráætlun og lægsta boði, sem var frá Stárgrindarhúsum ehf..
Þá samþykkti bæjarstjórn að nýta heimild laga um opinber innkaup til þess að efna til samkeppnisútboðs eða samkeppnisviðræðna við bjóðendur sem uppfylltu hæfiskröfu útboðsskilmála. Bæjarstjóra var falið að hefja þær viðræður strax.
Sjálfstæðismenn sátu hjá
Sú tillaga var samþykkt með fimm atkvæðum en báðir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá í atkvæðagreiðslu um hana.
í fundargerð segjast þeir hafa setið hjá í ljósi þess að þeir telji kostnað við bygginguna og framkvæmdatímann áhyggjuefni.
„Þannig er lægsta tilboðið sem kom fram í útboðinu um 64 prósent yfir upphaflegri fjárhagsáætlun. Tilboðin eru það langt umfram getu bæjarfélagsins að lítil sem engin von er til að viðræður við tilboðsgjafana leiði til farsællrar lausnar og muni tefja málið til skaða fyrir bæjarbúa,“ segir í fundargerð.
Þá segir að þeir vilji fara í framkvæmd sem sé fjárhagslega raunhæf fyrir sveitarfélagið, taki stuttan tíma og mæti þörfum íþróttafélagsins og annarra notenda aðstöðunnar.
„Við erum tilbúin að skoða ýmsar leiðir í því sambandi en bendum t.d. á gervigrasvöll í fullri stærð, viðbyggingu við núverandi íþróttahús eða loftborið hús,“ segja Sjálfstæðismenn.