KSÍ virðist nú hafa fundið eftirmann Arnars í Norðmanninum Åge Hareide sem áður hafði verið í sigti sambandsins þegar Arnar var ráðinn, en þá var Hareide nýbúinn að skrifa undir samning við norska félagið Rosenborg.
Rætt var ítarlega um stöðu A-landsliðs karla á stjórnarfundi KSÍ miðvikudaginn 29. mars, þremur dögum eftir að Ísland vann sinn stærsta sigur í mótsleik frá upphafi þegar það vann 7-0 á útivelli gegn Liechtenstein.
Tapið gegn Bosníu í sömu ferð, 3-0, varð hins vegar til þess að hljóðið í stjórnarmönnum var þungt varðandi stöðu landsliðsins.
Í fundargerð frá fundi stjórnar KSÍ, sem nú hefur verið birt á vef sambandsins, segir:
„Rætt var ítarlega um stöðu A landsliðs karla og var það samdóma álit stjórnar að síðasti landsliðsgluggi hafi verið vonbrigði. Ljóst er að trú á þá vegferð sem liðið er á hefur dvínað og ákveðið að ræða málið nánar á framhaldsfundi daginn eftir.“
Sá fundur fór fram í gegnum Teams eins og fyrr segir og tók fjörutíu mínútur. Fundinn sátu eftirtaldir stjórnarmenn auk Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra sem ritaði fundargerðina:
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Sigfús Ásgeir Kárason varaformaður, Halldór Breiðfjörð Jóhannsson, Helga Helgadóttir, Ívar Ingimarsson, Orri Hlöðversson, Pálmi Haraldsson, Tinna Hrund Hlynsdóttir og Unnar Stefán Sigurðsson.
Í fundargerð segir að niðurstaðan hafi verið þessi:
„Stjórn KSÍ samþykkti að leysa Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfara A landsliðs karla frá starfsskyldum sínum frá og með deginum í dag, 30. mars 2023. Stjórn KSÍ samþykkti að fela formanni KSÍ, Vöndu Sigurgeirdóttur, að leiða ferlið við tilkynningu til landsliðsþjálfara um ákvörðun stjórnar og hefja leit að nýjum landsliðsþjálfara.“