Myndin er framhald Dune kvikmyndarinnar frá 2021 og mæta þau Timothée Chalamet og Zendaya aftur til leiks í hlutverkum sínum sem Paul Atreides og Chani. Hin síðarnefnda verður þó í töluvert stærra hlutverki að þessu sinni.
Myndin byggir á heimsfrægri vísindaskáldsögu Frank Herbert rétt eins og fyrri myndin. Báðar eru myndirnar byggðar á bókinni um sandplánetuna Arrakis en bókin er sú fyrsta af þremur þar sem Paul Atreides er í aðalhlutverki.
Í Dune: Part II þarf Atreides að taka á hinum stóra sínum ásamt frumbyggjunum sem kenndir eru við Fremen í baráttunni gegn hinni illu Harkonnen fjölskyldu. Neistar kvikna fljótlega á milli Atreides og Chani eins og sést berlega í stiklunni.
„Í fyrstu myndinni var Paul Atreides nemandi en við sjáum hann verða að leiðtoga núna,“ hefur bandaríski miðillinn Variety eftir aðalleikaranum Timothée Chalamet.

Nýjar stjörnur mæta til leiks
Meðal nýliða sem mæta til leiks í myndinni er ástralski leikarinn Austin Butler. Hann mun fara með hlutverk Feyd Rautha Harkonnen, litla frænda hins illa Harkonnen baróns sem leikinn er af sænska leikaranum Stellan Skarsgard og var allt í öllu í síðustu mynd.
Þá mætir breska leikkonan Florence Pugh jafnframt til leiks í myndinni sem Irulen prinsessa, sem ku vera dóttir sjálfs Shaddam IV keisara og mikilvægur hluti af Dune sögunni.
Dune: Part II er væntanleg í kvikmyndahús hér á landi í nóvember.