Þær Mariia Alekhina og Liudmila „Lucy“ Shtein komust á ævintýralegan hátt frá Rússlandi í fyrra. Alekhina var á meðal þriggja liðsmanna Pussy Riot sem voru handteknir eftir að þeir trufluðu messu í Kristskirkjunni í Moskvu með gjörningi árið 2012. Þær töldu að þeim væri ekki vært í Rússlandi lengur en Vladímír Pútín Rússlandsforseti bælir nú niður allt andóf í landinu af enn meiri hörku en áður.
Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis lagði til að þær Alekhina og Shtein auk sextán annarra fengju ríkisborgararétt í gær. Atkvæðagreiðsla fór fram um frumvarpið síðdegis og var það samþykkt með atkvæðum 51 þingmanns sem var á staðnum. Allir flokkar á þingi greiddu atkvæði með frumvarpinu fyrir utan Miðflokkinn en báðir þingmenn hans voru fjarverandi.
Fólkið sem er nú orðið íslenskir ríkisborgarar var af ellefu þjóðernum. Í hópnum voru fimm Rússar, að þeim Alekhinu og Shtein meðtöldum, tveir Íranar, tveir Indverjar og tveir Bretar. Til viðbótar var Ísraeli, Taílendingur, Skoti, Filippseyingur, Ítali, Bandaríkjamaður og Ganverji gerður að ríkisborgara.
Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, sagði að nefndinni hefðu borist 94 umsóknir um ríkisborgararétt. Nefndin hafi verið einhuga um að leggja til að þessir átján einstaklingar fengju þann rétt.