Í lok árs 2019 steig Margrét Lillý Einarsdóttir fram í Kompás og opnaði sig um uppvaxtarár sín sem einkenndust af vanrækslu og ofbeldi af hálfu móður. Síðan þá hafa bæjaryfirvöld Seltjarnarnesbæjar beðist opinberlega afsökunar og Barnaverndarstofa gefið út skýrslu þar sem fram kemur að verulegir annmarkar hafi verið á meðferð barnaverndaryfirvalda í máli Margrétar. Tilkynningar hafi ekki verið skráðar og málið rannsakað með ómarkvissum og óskýrum hætti.
Frestur var gerður á aðalmeðferð málsins þann 16. mars til sáttaumleitana en sættir náðust ekki og hófst aðalmeðferð í málinu að nýju 2. maí. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður feðginanna, staðfestir í samtali við fréttastofu, að niðurstaða í skaðabótamálinu fáist í hádeginu á morgun.
Fréttastofa hitti feðginin áður en þau héldu í dómsal þann 16. mars og frestur var gefinn í málinu. Þá mátti finna á þeim báðum að þau væru enn bæði sár og reið.
„Það var komið svo illa fram við okkur af Seltjarnarnesbæ. Þau brutu svo rosalega á rétti okkar. Að hugsa sér, að fólk sem á að vinna með börnum skuli ekki geta haft þau í fyrsta sæti. Það er ótrúlegt,“ sagði Einar Björn í viðtali þann 16. mars.