Tveir karlmenn sem eru samkvæmt heimildum fréttastofu hálfbræður voru handteknir í tengslum við rannsókn lögreglu á málinu. Öðrum var sleppt úr gæsluvarðhaldi eftir viku en hinn er enn á bak við lás og slá.
Héraðsdómur féllst þann 10. maí á áframhaldandi gæsluvarðhald og einangrun. Úrskurðurinn var kærður til Landsréttar og féllst Landsréttur á að aflétta kröfu um einangrun. Fékk hann því að umgangast aðra fanga.
Lögreglan á Suðurlandi gerði aftur kröfu um gæsluvarðhald og einangrun fyrir helgi. Héraðsdómur féllst aftur á kröfu lögreglu en verjandi mannsins kærði úrskurðinn til Landsréttar. Koma verður í ljós hvort Landsréttur fellst á kröfu lögreglu eða fellir aftur úr gildi einangrun úr héraði.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir rannsókn málsins miða mjög vel. Beðið er eftir niðurstöðum úr rannsóknum á lífsýnum og sömuleiðis tæknigögnum.