Dagur er þriðji Íslendingurinn á skömmum tíma sem semur við Karlskrona en áður hafði félagið tryggt sér landsliðsmanninn Ólaf Guðmundsson frá Amicitia Zürich í Sviss, og Þorgils Jón Svölu Baldursson frá Val. Þá fær félagið einnig þýska markvörðinn Phil Döhler frá FH. Karlskrona vann sig upp úr næstefstu deild Svíþjóðar nú í vor.
Dagur er 23 ára gamall, leikur sem hægri skytta og var valinn handknattleiksmaður ársins hjá ÍR á síðasta ári. Hann skoraði 115 mörk í 22 leikjum í Olís-deildinni í vetur eða yfir fimm mörk að meðaltali í leik, og átti tæplega þrjár stoðsendingar í leik en það dugði þó ekki til að halda liði ÍR uppi í deildinni.
Dagur hefur leikið allan sinn feril með ÍR en skrifaði undir samning til tveggja ára við Karlskrona.
„Dagur er leikmaður sem við sáum snemma sem góðan valkost fyrir okkur. Hann er nútíma skytta með hraða og spilhæfileika. Við teljum að hann og Hugo Sivertsson muni standa sig vel saman í þessari stöðu,“ sagði Tobias Karlsson, íþróttastjóri Karlskrona, á heimasíðu félagsins.
„Það er virkilega gott að koma til Karlskrona. Ég kom í heimsókn í apríl og átti mjög góða upplifun af félaginu og staðnum. Ég fékk líka að sjá liðið vinna í umspilinu og það var mikil upplifun, að sjá bæði hvað liðið er gott og hvað stemningin er góð í höllinni. Félagið hefur boðið mér spennandi lausn þar sem ég get spilað handbolta á hæsta stigi og starfað í spennandi umhverfi,“ sagði Dagur.