Meðal gesta í brúðkaupinu voru samherjar Martínez í argentínska landsliðinu sem varð heimsmeistari undir lok síðasta árs. Lionel Messi, fyrirliði Argentínu, var hins vegar hvergi sjáanlegur.
Messi valdi nefnilega frekar að fara á tónleika með Coldplay í Barcelona um helgina ásamt Cesc Fábregas, fyrrverandi samherja sínum í Barcelona.
Romelu Lukaku, félagi Martínez í framlínu Inter, mætti hins vegar í brúðkaupið ásamt rapparanum Megan Thee Stallion. Hér gæti nýtt ofurpar verið á ferðinni en bæði hafa þau skrifað undir umboðssamnning við umboðsskrifstofu Jay Z, Roc Nation.
Martínez, Lukaku og félagar í Inter mæta Torino á útivelli í lokaumferð ítölsku úrvalsdeildarinnar á laugardaginn. Inter er öruggt með Meistaradeildarsæti og gæti stolið 2. sætinu af Lazio ef hlutirnir falla með þeim bláu og svörtu í lokaumferðinni.
Laugardaginn 10. júní mætir Inter svo Manchester City í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í Istanbúl. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2010 sem Inter leikur í úrslitum Meistaradeildarinnar.
Martínez hefur átt gott tímabil með Inter og skorað 28 mörk í öllum keppnum. Tvö þeirra komu í úrslitaleik ítölsku bikarkeppninnar þar sem Inter sigraði Fiorentina, 1-2.
Martínez, sem er 25 ára, hefur leikið 48 landsleiki fyrir Argentínu og skorað 21 mark.