„Auðvitað vilja allir hafa opið en það er eins með þetta mannvirki og önnur. Það þarf að halda því við,“ segir Elín H. Gísladóttir, forstöðumaður Sundlaugar Akureyrar, í samtali við fréttastofu.
Sundlaug Akureyrar nýtur mikilla vinsælda, sérstaklega hjá ungu kynslóðinni vegna rennibrautanna sem vígðar voru sumarið 2017. Er laugin jafnan fastur viðkomustaður fyrir fjölskyldufólk á ferð um Norðurland, en Flækjan er lengsta rennibraut á Íslandi, alls 86 metrar að lengd.
Elín segist ekki hafa fengið margar tilkynningar frá starfsfólki vegna viðskiptavina sem hafi verið svekktir við komuna í laugina vegna lokaðra rennibrauta. „Auðvitað snúa einhverjir svekktir frá en það var einfaldlega kominn tími á viðhald,“ segir Elín.
Elín segir að tveir starfsmenn frá framleiðslufyrirtæki rennibrautanna hafi hafist handa við viðhald á brautunum á þriðjudaginn.
„Þetta eru langir vinnudagar hjá þeim. Það er verið að laga yfirborðið inni í rennibrautunum sem var orðið slitið og við hlökkum að sjálfsögðu til að hægt verði að opna þær á ný enda ferðamannasumarið að fara á fullt,“ segir Elín.