Þetta varð ljóst eftir lokagrein mótsins fyrr í dag en Björgvin Karl endar í áttunda sæti undanúrslitamótsins, ellefu efstu keppendurnir í karlaflokki tryggðu sér sæti á heimsleikunum.
Björgvin Karl hefur því tryggt sér sæti á heimsleikum CrossFit tíu sinnum í röð sem verður að teljast ansi góður árangur því aðeins tveimur öðrum keppendum, í sögu CrossFit, hefur tekist það í karlaflokki.
Hann verður þar í hópi góðra Íslendinga en fyrr í dag tryggði Annie Mist Þórisdóttir sér sæti á heimsleikunum.
Áður höfðu þau Katrín Tanja Davíðsdóttir, Breki Þórðarson og Bergrós Björnsdóttir öll tryggt sér sæti á leikunum sem fara fram í Madison, Wisconsin í Bandaríkjunum dagana 3.-6. ágúst næstkomandi.
Björgvin Karl fór fyrst á heimsleikana árið 2014 og hefur síðan þá verið á meðal keppenda á leikunum öll árin síðan þá.
Besti árangur hans til þessa á leikunum er 3. sæti. Þeim áfanga náði hann bæði á leikunum árið 2015 sem og 2019.