Fiðlufjör er nú haldið sjöunda árið í röð á Hvolsvelli en það er Chrissie Telma Guðmundsdóttir, sem er stjórnandi og stofnandi Fiðlufjörs. Um er að ræða fjölbreytt námskeið og tónleika fiðlunemenda á aldrinum þriggja ára til sextán ára af öllu landinu. Upphitun fyrir daginn fer meðal annars fram í Hvolnum þar sem nemendur gera ýmsar æfingar með kennurum sínum, bæði spilandi og ekki spilandi. Þá þarf líka að passa að stilla allar fiðlurnar rétt.
„Þetta eru hóptímar, einkatímar og tónleikar, það eru átta tónleikar á fimm dögum. Þetta er bara fyrir alla, sem eru í fiðlunámi, óháð aldri og námsleið. Í ár erum við með um 70 þátttakendur en þau hafa verið síðustu ár í kringum 80 til 100,” segir Chrissie Telma.

En hvað er það við fiðluna, sem er svona áhugavert og heillandi?
„Það er bara svo spennandi að spila á hana því það er hægt að gera svo margt. Það er hægt að gera allskonar breytingar á tónunum og það er hægt að leika sér með allskonar verk,” segir Chrissie.
Chrissie kemur víða fram með fiðluna sína á tónleikum og öðrum fjölbreyttum verkefnum. Fiðlan hennar eru frá átján hundruð og kostaði margar, margar milljónir króna.

„Mín fiðla, ég var í þrjú ár að leita að henni og fór til fimm landa og prófaði örugglega 90 fiðlur þangað til ég fann mína, þá loksins fann ég sálufélagann minn,” segir Crissie hlægjandi.
Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni og það á sannarlega við um þriggja ára son Chrissie, sem spilar hér uppáhaldslagið sitt úr Hvolpasveitinni með aðstoð mömmu sinnar, sem sér um sönginn.
