Skoðun

Úrelt vinnubrögð og ranghugmyndir Seðlabankans rjúfa lögsett valdmörk

Örn Karlsson skrifar

Opið bréf til forsætisráðherra og Alþingis

Seðlabanki Íslands hefur með uppkeyrslu vaxta og vaxandi vaxtamun við Evrópu enn eina ferðina stofnað til krísuástands að óþörfu í íslensku samfélagi. Með röngum ákvörðunum hefur Seðlabankinn tekið til sín vald sem honum er ekki gefið að lögum.

Vart er umdeilt í peningahagfræðinni að langtímastöðugleiki fjármála og verðlags er við þær aðstæður þegar greiðslumynt lands markast af þrótti hagkerfis þess öðru fremur. Til að svo megi vera þarf seðlabanki að gæta að því að peningamagn vaxi í takti við hagvöxt og að vextir trufli ekki eðlilega verðmyndun greiðslumyntarinnar.

Krónan okkar hefur ekki verðgildi í sjálfri sér. Íslenska hagkerfið sem stendur að baki krónunni gefur henni verðgildi. Í okkar opna hagkerfi fæst því réttast jafnvægisverðgildi til lengri tíma þegar fjölda prentaðra króna er haldið í takti við vöxt hagkerfis og vöxtum haldið nálægt vöxtum hins ráðandi stóra Evrópska hagkerfis.

Þegar vaxtamunur við Evrópu er keyrður upp, sér í lagi þegar innra virði krónunnar er ekki í fasa veikingar, fer í gang ferli sem vinnur gegn verðstöðugleika og jafnvægi. Styrkur krónunnar vex þá að öðru jöfnu þannig að peningamagn í umferð fær aukinn kaupmátt, sem eitt og sér jafngildir peningaprentun. Ennfremur fá fjármálastofnanir ítök í stærri hluta raunhagkerfisins í umhverfi breytilegra vaxta sem gefur þeim aukinn þrótt til útlána. Þeir sem halda á peningamagninu fá bónus sem þeir aldrei sömdu um. Gæði samfélagsins hliðrast þannig til þeirra framhjá öllum sáttmálum samfélagsins og samningum. Misskipting eykst. Láglaunastéttir sem lítinn afgang eiga þegar nauðþurftir hafa verið greiddar fá ekki sambærilegan bónus. Með vaxandi vaxtamun fer svo að birtast viðskiptahalli því kaupgeta peningamagnsins verður meiri en undirliggjandi hagkerfi stendur undir. Þegar vaxtamunurinn fær að vaxa, dafna og viðhaldast þrengir að raunhagkerfinu og útflutningsgreinum. Ójafnvægi vex þar til innra virði greiðslumyntarinnar gefur eftir í virðisfalli eða hröðu undanhaldi.

Þetta stef sem hér er rakið er þekkt í íslensku efnahagslífi. Og enn eina ferðina erum við þar stödd þegar verðgildi peningamagnsins er enn í vexti og viðskiptahallinn viðvarandi vegna vaxandi vaxtamunar við Evrópu. Vöxtur ferðaþjónustunnar styður þó við krónuna og lengir í ferlinu.

Hlutverk Seðlabankans að lögum

Lög um Seðlabankann eru skýr um að Seðlabankanum beri að stuðla að stöðugu verðlagi og fjármálastöðugleika. Þetta þýðir í raun að Seðlabankanum ber að stuðla að stöðugu innra virði krónunnar og að umhverfi fjármala styðji við samninga og sáttmála samfélagsins sem gerðir hafa verið á grundvelli lýðræðisskipulagsins.

Verðbreytingar einstakra vara og vöruflokka sem eru óháðar breytingum á innra virði krónunnar hafa hins vegar lengi truflað sýn Seðlabankans með þeirri afleiðingu að hann hefur brugðist við með vaxtahækkunum og sett í uppnám skiptingu gæðanna. Þegar svo háttar vinnur bankinn gegn lögbundnum skyldum sínum og tekur til sín vald sem honum er ekki ætlað samkvæmt íslenskri stjórnskipun.

Svo virðist að Seðlabankinn skilji ekki að vísitala neysluverðs er ófær um og er ekki hönnuð til að meta rýrnun greiðslumyntar. Gífurleg vinna peningahagfræðinga fór fram á 10. áratug síðustu aldar í að greina eðli verðbreytinga í þeim tilgangi að bæta ákvarðanir sem teknar eru við stjórn peningamála. Niðurstaðan var að seðlabankar ættu ekki að rjúka upp með vexti sem viðbragð við hækkandi vísitölu neysluverðs ef sú hækkun stafaði frá raunhækkun vara eða vöruflokka vegna framboðs- eða eftirspurnarhnykkja. Sem dæmi komst Ben Bernanke ofl. að því í rannsókn 1997 að olíukreppurnar á áttunda áratug síðustu aldar hefðu ekki stafað frá hækkuðu olíuverði eins og talið hafði verið heldur vegna hertrar peningastefnu í kjölfar áhrifa olíuverðshækkana á vísitölu neysluverðs. Ýmsar aðferðir spruttu upp á 10. áratugnum til að meta peningaþátt verðbreytinganna. Hinn sameiginlegi þráður verðbreytinganna sem lýsir best rýrnun greiðslumyntar hefur á ensku fengið heitið Core Inflation, oft nefnd kjarnaverðbólga. Áhugaverða vinnu á þessu sviði fyrir Seðlabanka Evrópu unnu Fase og Folkertsma. 1996 gáfu þeir meðal annars út rannsóknarritgerðina „Measuring inflation. An attempt to operationalize Carl Menger's concept of the inner value of money“ Við lok áratugarins tók Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn saman bollaleggingar peningahagfræðinga í ritinu „Core Inflation Concepts. Uses and Measurement

Það sýnir ótrúlega lítinn skilning Seðlabanka Íslands á hugmyndinni um kjarnaverðbólgu og leitinni að þræði peningaþáttar verðbreytinganna að hann setur jafnan fram meðaltal mælikvarða á kjarnaverðbólgu sem Hagstofan leggur fram og kallar það meðaltal undirliggjandi verðbólgu. Þessi vinnubrögð ná engri átt og hafa ítrekað leitt Seðlabankann á þær villigötur sem ofar er lýst.

Tökum einfalt dæmi: Aðeins ein vara vöruflórunnar, húsnæði, rýkur upp í verði vegna einhverra atvika óháðra breytingum á innra virði peninga. Augljóst er þá að kjarnaverðbólgan er nokkurn veginn vísitala neysluverðs að undanskyldu húsnæði. En Seðlabankinn sér það ekki þannig. Hann tekur fyrirfram ákvarðaðar vísitölur sem Hagstofan reiknar, tekur svo meðaltalið af þeim og leggur þá niðurstöðu á borð fyrir okkur sem undirliggjandi verðbólgu. Þetta er galið, því inni í kjarnavísitölum sem Hagstofan reiknar er húsnæði. Mistökin sem Seðlabankinn gerir er að skoða ekki verðbreytingarflóruna í rauntíma. Svo þarf auðvitað að hafa tilfinningu fyrir verkefninu! Allt að einu virðist Seðlabankanum ómögulegt að rækja lögbundnar skyldur sínar um að stuðla að verðstöðugleika í störfum sínum. Svo fjarri er hann oft að meðvitað eða ómeðvitað brýtur hann upp samninga og samþykktir um miðlun efnislegra gæða samfélagsins á grundvelli lýðræðisskipulagsins.

Slóð Seðlabankans er slóð mistaka alla þessa öld

Að minnsta kosti fjórum sinnum hefur Seðlabankinn farið í skógarferð með vextina til stórkostlegs tjóns fyrir samfélagið eftir að fremstu peningahagfræðingar síðustu aldar bentu á hættuna af slíkum ferðum. Það má kannski fyrirgefa mistökin 2001 og skilgreina þau sem byrjendamistök. En Seðlabankinn virðist ekkert hafa lært af þeim mistökum og hann kynnti sér greinilega ekki fræðin um kjarnaverðbólgu, eða skildi þau ekki, því árið 2004 rauk hann upp með vextina og hélt því áfram meira og minna linnulaust þar til hagkerfið var við brún falls 2007. Yfir þjóðina reið kreppa miklu verri en í öðrum vestrænum samfélögum. Það sem kveikti vaxtabálið 2004 voru raunhækkanir á verði tveggja vöruflokka vegna atvika óháðra virði peninga. Húsnæðisverð tvöfaldaðist vegna hækkaðra lánshlutfalla og innkomu bankanna á íbúðamarkaðinn og olíuverð þrefaldaðist vegna ógnaraldar í Miðausturlöndum. Vaxtahækkanirnar 2004 til 2006 leiddu til gífurlegs fjármálalegs misgengis og mikils viðskiptahalla. Stórkostleg tilfærsla eigna átti sér einnig stað í gegnum verðtryggða lánasamninga því vísitala neysluverðs sem ákvarðar lögskiptin í slíkum samningum hækkaði nær eingöngu vegna raunhækkunar ofannefndra tveggja vöruflokka. Krónan stóð keik allan tímann. Sú niðurstaða Rannsóknarskýrslu Alþingis að hækka hefði þurft vextina meira og hraðar í aðdraganda hrunsins til að koma í veg fyrir vandræði Íslands lýsir berlega algengum ranghugmyndum um virkni vaxtatækisins meðal íslenskra hagfræðinga.

Enn keyrði Seðlabankinn samfélagið á vegg árið 2016/2017. Þá var ferðaþjónusta í örum vexti og spurn eftir húsnæði jókst talsvert. Húsnæðisverð reis og vísitala neysluverðs hækkaði. Krónan var í styrkingarfasa vegna vaxandi ferðaþjónustu. Við þessar aðstæður hækkaði Seðlabankinn stýrivexti verulega. Krónan ofreis og féll svo um 25% í þrengingum hagkerfisins í kjölfarið. Í stað þess að þiggja hagsældina sem fylgdi aukinni ferðaþjónustu og lækka vexti fór bankinn leynt og ljóst í slag við ferðaþjónustuna. Haustið 2016 var seðlabankastjóri Sviss, Thomas Jordan spurður af hverju hann hækkaði ekki stýrivexti. Hann svaraði:

We understand the difficult situation for the banks, for the insurers and the pension funds. But increasing the interest rate wouldn’t help because it would lead to a rise in the franc.”

Seðlabanki Sviss hefur haft fókusinn á réttum stað alla þessa öld. Hann veit að hið stóra hagkerfi Evrunnar þarf að leiða vaxtaumhverfið í megin dráttum. Að öðrum kosti er verðstöðugleikanum hætta búin. Á Íslandi telja hagfræðingar hins vegar að ná megi verðstöðugleika með því að keyra upp vaxtamun við Evrópu. Það spilverk allt er útlistað á heimasíðu Seðlabankans undir fyrirsögninni „Miðlun peningastefnunnar“. Við Íslendingar þekkjum á eigin skinni að hér bullar Seðlabankinn sem aldrei fyrr því slík skammtímakæling vísitölu neysluverðs er dýru verði keypt með virðisþenslu peningamagnsins, upplausnar samfélagssáttmála um kaup og kjör og að endingu með virðisfalli greiðslumyntarinnar.

Krísan sem við nú stöndum í

Upphaf núverandi krísu má rekja til atburða á tímum Covid-19. Ríkisstjórnin ákvað að verja atvinnulífið í gegnum Covid kreppuna og dældi nær 500 milljörðum út í samfélagið, sex sinnum meira hlutfallslega en Svíþjóð. Með þessu vildu stjórnvöld tryggja að atvinnulífið og hagkerfið allt tæki hratt við sér að loknum samkomutakmörkunum. Það verður að hrósa stjórnvöldum fyrir þessa aðgerð að flestu leyti nema að ekki var gert ráð fyrir að skattleggja til baka þá hjálp sem var umfram það sem þurfti til að halda fyrirtækjum á floti. Með ríkisstuðningi högnuðust því mörg fyrirtækin sem aldrei fyrr. Fjárausturinn var því möguleg orsök verðbólguskots. Hvort hið mögulega verðbólguskot raungerðist var háð efnahagsbatanum eftir Covid. Ef áætlanir stjórnvalda gengju eftir um skjótan hagvöxt eftir Covid var alveg óvíst hvort umfram fjárausturinn leiddi til slíks. Í sinni einföldustu mynd þolir stærra hagkerfi meira peningamagn en lítið. Það kom þó aldrei vel í ljós hvort aðgerðir stjórnvalda voru verðbólguvaldandi því Seðlabankinn fór í vaxtahækkunarferli áður en nokkur verðbólga birtist önnur en sú sem tengdist raunhækkun á verði húsnæðis og innfluttum vörum sem markaðar voru af slitnum aðfangakeðjum vegna Covid.

Seðlabankinn ákvað að fara með vexti niður í Evrópuvexti til örvunar á Covid tímum. Einnig voru fjárbindingar bankanna lækkaðar eða afnumdar til að gera þeim betur kleift að lána og þenja peningamagnið.

Vaxtalækkunin var kærkomin, en Seðlabankinn mátti þó vita að þessar aðgerðir leiddu til aukinnar eftirspurnar eftir húsnæði því þekkt er að húsnæðiseftirspurn og verð eru m.a. háð vaxtastigi, aðgengi að lánsfé og veðsetningarhlutfalli. Með það sama jókst eftirspurn eftir húsnæði og verð þess reis skarpt. Til að byrja með lét Seðlabankinn þetta ferli afskiptalaust. Hann hefði að ósekju mátt tempra áhrifin af vaxtalækkununum á húsnæðisverð með því að gefa fyrirmæli um aukin útlán til framleiðslu húsnæðis. Mögulega hefði hann einnig mátt lækka veðsetningarhlutföll og herða lánþegaskilyrði á meðan framboð húsnæðis næði í skottið á eftirspurninni.

Snögglega fór Seðlabankinn á taugum og hóf vaxtahækkunarferli í þeim tilgangi að lækka fasteignaverð aftur og til að minnka neikvæða raunvexti í hagkerfinu. Engin merki voru um verðbólgu áður en bankinn hóf vaxtahækkunarferil sinn í þeim skilningi að krónan væri í eftirgjöf og verðhækkanir af þeim sökum að breiðast út í alla vöruflóruna. Engin merki voru heldur um að fasteignaverð væri risið yfir það verð sem eðlilegt má telja miðað við þau markaðsskilyrði sem til staðar voru í formi vaxta, lánshlutfalla og lánþegaskilyrða. Samanburður við húsnæðisverð þéttbýlis við svipuð skilyrði víða í Evrópu benti ekki til þess.

Fullyrðing Seðlabankans um að raunvextir hafi verið neikvæðir þegar hann hóf vaxtahækkunarferli sitt stafar frá lélegum vinnubrögðum við mat á kjarnaverðbólgu. Þegar verðbreytingar eru að uppistöðu til vegna raunhækkana einstakra vara og vöruflokka vegna atvika óháðra peningum er vísitala neysluverðs afar lélegt viðmið til mats á raunvöxum. Eðli máls samkvæmt eru raunvextir mismunur á nafnvöxtum og hlutfallslegri rýrnun greiðslumyntarinnar. Greiðslumyntin var í styrkingarfasa þegar vaxtahækkunarferlið hófst og því má telja víst að sama hversu lágir vextirnir voru þá hafi raunvextir verið jákvæðir á þeim tímapunkti.

Jafnt og þétt hækkaði bankinn vexti sína því markmiðið um jákvæða raunvexti sóttist hægt. Svo kom að vaxtamunur við Evrópu tók að styðja við þanið peningamagnið sem bankinn setti engar hömlur gegn. Vöruskiptahalli birtist þá sem afleiðing og viðskiptahalli fljótlega í kjölfarið. Þá benti seðlabankastjóri á að neyslan væri allt of mikil og hækkaði vexti enn. Þegar þarna var komið sögu var farið að sjóða á seðlabankastjóra. Hann virtist hvorki skilja upp né niður og tók að beina tali sínu að almenningi, að hann eyddi allt of miklu og benti á fjölda tásumynda frá Tene á samfélagsmiðlum máli sínu til stuðnings.

Þegar glitti í heildarmynd ársins 2022 var ljóst að hagvöxtur myndi verða rúmlega 6%. Þessar upplýsingar nýtti seðlabankastjóri til að réttlæta enn frekari stýrivaxtahækkanir. Þetta væri bara allt of mikill hagvöxtur. Horfði hann þá framhjá þeim mikla undirbúningi stjórnvalda og meðgjöf sem duga myndi til að hagkerfið tæki hraustlega við sér að afloknum samkomutakmörkunum. Einnig horfði hann framhjá hinni miklu fólksfjölgun sem átti sér stað á árinu 2022, en hún var vel yfir 3%. Stórt hlutfall nýbúa Íslands á árinu var fólk á starfsaldri. Seðlabankastjóri varð uppvís að því að vita ekki hver fólksfjölgunin var árið 2022 á nefndarfundi Alþingis. Samt hafði hann skömmu áður hækkað stýrivexti á grundvelli mikils hagvaxtar. Fólksfjölgun er lykilbreyta við greiningu á hagvexti. Þegar málið er krufið var hagvöxtur síst meiri en eðlilegt má telja miðað við að hagkerfið var að koma úr Covid kreppunni og að teknu tilliti til fólksfjölgunarinnar. Hagvöxtur síðasta árs gaf ekkert tilefni til vaxtahækkana.

Nú erum við þar stödd að vaxtamunur við Evrópu er afgerandi. Vextir á Íslandi eru um 170% hærri en vextir Evrópu. Þensla peningamagnsins og stuðningur hárra vaxta við kaupmátt peningamagnsins hefur leitt til raunverulegrar verðbólgu hvar verðhækkanir eru almennar. Hinir háu vextir þrengja enn fremur að mörgum þáttum atvinnulífsins, sem hamlar eðlilegri virkni og stærð þess. Fyrir vikið er verðbólgan meiri en ella. Mörg fyrirtæki hafa að auki nýtt sér þá ringulreið sem vaxtahækkanir hafa valdið og hækkað verð umfram kostnaðarhækkanir. Hann er úr augsýn í bili draumurinn um vexti í takti við Evrópu því ef vextir eru lækkaðir hækkar húsnæðisverðið og þá er fyrirséð að Seðlabankinn muni gera allt vitlaust aftur með snarhækkun vaxta.

Og við höfum seðlabankastjóra sem viðurkennir ekki mistök sín heldur bendir á láglaunfólk sem sökudólg. Við höfum seðlabankastjóra sem ætlar að klóra í bakkann og sópa vaxandi snjóhengju íbúðalána undir teppi verðtryggingar. Við höfum seðlabankastjóra sem lætur út úr sér að mögulega hefði hann átt að hækka vexti meira í fyrra, þá væri verðbólgan sennilega minni núna. Við höfum seðlabankastjóra sem skilur ekki verkun verðtryggingar, m.a. segir hann okkur að engu breyti um miðlun peningastefnunnar hvort skuldir heimilanna séu verðtryggðar eða ekki. Við höfum seðlabankastjóra sem heldur að hann geti kæft verðbólguna með vaxtahækkunum alveg óháð því hvað peningamagnið þenst því allar götur á meðan vaxtahækkunarferlið hefur staðið hefur hann leyft peningamagninu að þenjast. Við höfum seðlabankastjóra sem reynir að telja okkur trú um að samkvæmt lögum hafi hann engan annan kost átt en að gera nákvæmlega það sem hann gerði. Við höfum seðlabankastjóra sem hótar láglaunastéttum verðtryggðu umhverfi og enn frekari vaxtahækkunum ef þær bera hönd fyrir höfuð sér. Í mesta góðæri sem Íslendingar hafa upplifað höfum við seðlabankastjóra sem hótar að keyra samfélagið í kreppu ef fólk hagar sér ekki eftir duttlungum hans.

Seðlabankinn er kominn langt út fyrir lögsett valdmörk sín. Með aðgerðum sínum hefur hann grafið undan krónunni og hleypt gamla verðbólgudraugnum að. Hann hefur stuðlað að aukinni misskiptingu og færslu efnislegra gæða milli þjóðfélagshópa framhjá samningum og sáttmálum byggðum á lýðræðisskipulagi landsins. Samkvæmt lögum ber forsætisráðherra ábyrgð á Seðlabankanum, að minnsta kosti pólitíska. Stóra spurningin er; hvað ætlar forsætisráðherra að gera?

Höfundur er vélaverkfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×