Þá segir að starfsbrautir hafi verið opnaðar í MR og Kvennaskólanum til að koma betur til móts við sem flest börn í framhaldsskólakerfinu.
Jafnframt séu áform um að Verzlunarskóli Íslands skoði uppbyggingu starfsbrautar í skólanum haustið 2024.
Börn í lausu lofti í margar vikur
Talsverð umræða hefur skapast í tengslum við plássleysi á starfsbrautum í framhaldsskólum en fjórir af þeim sextán sem útskrifuðust úr Klettaskóla í vor vissu ekki hvort þau fengju pláss á starfsbraut í framhaldsskóla.
Dagbjartur, sonur Gyðu Sigríðar Björnsdóttur, var einn þeirra. Gyða sagði málið stinga og hún vonaði að breytingar yrðu á þessum málum til framtíðar.
Dagbjartur fékk inn í FÁ en umsókn hans var í lausu lofti um nokkurra vikna skeið. Forstjóri Menntamálastofnunar sagði við Vísi að öll börn muni komast að í menntaskólum í ár þó sum þurfi að bíða lengur en önnur.
Hinn sextán ára Svanur Jón Norðkvist sótti um í Tækniskólann en var í gær ekki enn kominn með framhaldsskólavist.
Harpa Þórisdóttir, móðir Svans, sagði í samtali við Vísi í kvöld að hún hefði fengið símtal frá menntamálaráðuneytinu upp úr fjögur síðdegis en hún hafi misst af því.
Hún gerir fastlega ráð fyrir því að það hafi verið vegna framhaldskólavistarinnar en þarf að heyra í ráðuneytinu í fyrramálið til að staðfesta það.