Meðlimir í Facebook-hópnum Metanbílasamfélagið vöktu fyrr í mánuðinum athygli á að metan fengist af skornari skammti. Metanbílaeigendur sem Vísir ræddi við sögðu erfitt að geta ekki verið vissir um hvort metan sé tiltækt eða ekki hverju sinni.
Í tilkynningu frá Sorpu segir að framleiðsla fyrirtækisins á metangasi hafi nú aukist nægilega mikið til að ekki verði rof í þjónustu til olíufélaga á höfuðborgarsvæðinu. Maímánuður hafi verið söluhæsti mánuður Sorpu á metangasi frá upphafi.
Þá segir að gæði gassins höfðu að auki dalað úr 95% í 90% en samkvæmt nýjustu mælingum hafi þau aftur aukist í 92%.
„Á næstu vikum hefst borun í urðunarstaðinn í Álfsnesi til að auka söfnun á gasi. Með því verður tryggt að SORPA geti afhent viðskiptavinum sínum það metangas sem þeir þurfa um komandi ár,“ segir loks í tilkynningunni.