Skoðun

Fjögur þúsund manna sam­fé­lag án heil­brigðis­þjónustu

Anton Guðmundsson skrifar

Suður­nesja­bær, sem varð til við sam­ein­ingu Sand­gerðis og Garðs árið 2018, hýs­ir nú tæp­lega 4.000 íbúa. Þar er hins veg­ar ekki um neina heilsu­gæslu að ræða né hjúkr­un­ar­heim­ili og þurfa því íbú­ar að leita til annarra sveit­ar­fé­laga eft­ir heil­brigðisþjón­ustu. Ef mið er tekið af stærð er bæj­ar­fé­lagið eina sveit­ar­fé­lagið á Íslandi sem stend­ur í þeim spor­um. Gríðarlega hef­ur fjölgað í sveit­ar­fé­lag­inu á und­an­förn­um árum og er sveit­ar­fé­lagið með stórt og mikið verk­efni í fang­inu sem snýr að vega­laus­um börn­um þar sem flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar er staðsett í Suður­nesja­bæ og fell­ur því þessi mála­flokk­ur sjálf­krafa á barna­vernd sveit­ar­fé­lags­ins með til­heyr­andi kostnaði sem það hef­ur í för með sér.

Bæj­ar­yf­ir­völd og íbú­ar í Suður­nesja­bæ hafa lengi kallað eft­ir því að þjón­ust­an verði end­ur­vak­in líkt og hún var hér á árum áður til að tryggja grunnþjón­ustu í vax­andi sam­fé­lagi sem er nú orðið næst­stærsta sveit­ar­fé­lag Suður­nesja. Sveit­ar­fé­lagið hef­ur nú þegar boðið fram hent­ugt hús­næði und­ir starf­sem­ina sem bæði er vel staðsett, með næg­um bíla­stæðum og fyrsta flokks aðgengi á jarðhæð.

Í álykt­un Alþing­is um heil­brigðis­stefnu til árs­ins 2030 kem­ur fram að heilsu­gæsluþjón­usta sé veitt öll­um. Heilsu­gæsl­unni er ætlað stórt hlut­verk í heil­brigðisþjón­ustu við lands­menn sam­kvæmt lög­um. Hún á að vera fyrsti viðkomu­staður fólks í heil­brigðis­kerf­inu þar sem not­end­ur eiga kost á al­menn­um lækn­ing­um, hjúkr­un, end­ur­hæf­ingu, heilsu­vernd og for­vörn­um. Jafn­framt kem­ur fram að heilsu­gæsluþjón­usta er veitt í öll­um heil­brigðisum­dæm­um og skipu­lögð af heil­brigðis­stofn­un hvers heil­brigðisum­dæm­is. Starfs­stöðvar heilsu­gæslu eru víða og aðgengi að jafnaði nokkuð gott á lands­byggðinni.

Í skýrslu Rík­is­end­ur­skoðunar um heilsu­gæsl­ur á lands­byggðinni sem kom út 2018 kem­ur fram að 18 heilsu­gæslu­sel séu staðsett á land­inu og eru þau rek­in af heil­brigðis­stofn­un­um hvers heil­brigðisum­dæm­is. Sem stend­ur er HSS eina heil­brigðis­stofn­un­in á lands­byggðinni sem ekki starf­ræk­ir heilsu­gæslu­sel. Nauðsyn­legt er að tryggja getu HSS til þess að opna á ný þjón­ust­ur heilsu­gæslu­sela á Suður­nesj­um sam­fara aukn­um áhersl­um á aðgengi og fyr­ir­byggj­andi þjón­ustu í heil­brigðis­kerf­inu.

Bæj­ar­yf­ir­völd í Suður­nesja­bæ eru öll boðin og búin að hefja form­leg­ar viðræður við heil­brigðisráðuneytið og for­svars­menn HSS við fyrsta tæki­færi svo að hægt sé að und­ir­búa hús­næðið sem Suður­nesja­bær hef­ur upp á að bjóða und­ir slíka starf­semi.

Um er að ræða stórt rétt­læt­is­mál fyr­ir íbúa Suður­nesja­bæj­ar, að heil­brigðisþjón­usta verði í boði í sveit­ar­fé­lag­inu líkt og í öll­um öðrum sveit­ar­fé­lög­um á Íslandi af þess­ari stærð.

Það er ein­læg von mín að heil­brigðisráðherra og þing­menn í Suður­kjör­dæmi muni beita sér fyr­ir því að hafn­ar verði form­leg­ar viðræður við Suður­nesja­bæ við fyrsta tæki­færi svo að hægt sé að marka skýra stefnu og sýn sem mun stuðla að opn­un heil­brigðisþjón­ustu í Suður­nesja­bæ.

Höfundur er odd­viti Fram­sókn­ar og formaður bæj­ar­ráðs í Suður­nesja­bæ.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×