Sandra kemur á neyðarláni frá Val þar sem hún er enn skráð. Báðir markverðir Grindavíkur eru frá vegna meiðsla og nýtir Grindavík sér heimild í reglugerð KSÍ til að fá Söndru á láni.
Sandra mun leika með Grindavík á morgun þegar liðið mætir Augnablik í Lengjudeildinni. Í færslu Grindavíkur á Facebook kemur fram að Sandra taki hanskana tímabundið af hillunni til að hjálpa Grindavík.
Sandra á að baki glæsilegan feril sem knattspyrnukona. Hún varð sex sinnum Íslandsmeistari og fjórum sinnum hapaði hún bikartitlinum. Þá lék hún 49 landsleiki á sínum ferli og þar af alla leiki Íslands á EM síðasta sumar.
Sandra er leikjahæsti leikmaður í sögu efstu deildar kvenna í fótbolta en hún lék 331 leik í efstu deild. Hún spilaði með Þór/KA/KS, Stjörnunni og Val og skoraði eitt mark á ferlinum. Þá lék hún eitt tímabil í Svíþjóð með Jitex.
Í fyrra, á sínu síðasta tímabili, varð Sandra tvöfaldur meistari með Val, spilaði frábærlega með íslenska landsliðinu og var á meðal tíu efstu í kjörinu á Íþróttamanni ársins.