Ísland var með á HM í fyrsta og eina sinn sumarið 2018 í Rússlandi en var langt frá því að komast inn á HM í Katar sem fram fór í desember.
UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, hefur nú staðfest hvernig fyrirkomulagið verður í undankeppninni fyrir næsta HM, og baráttan um farseðil til Ameríku hefst eftir lokakeppni EM næsta sumar.
Tvær leiðir eru í boði fyrir Ísland inn á HM; í gegnum hina hefðbundnu undankeppni eða þá í gegnum Þjóðadeild auk umspils.

Undankeppni HM í Evrópu verður öll spiluð á árinu 2025. Spilað verður í 12 riðlum og komast sigurvegarar riðlanna beint á HM.
Liðin tólf sem enda í 2. sæti fara í umspil, ásamt fjórum bestu liðunum sem vinna sinn riðil í Þjóðadeildinni 2024-25 en enda ekki í 1. eða 2. sæti síns riðils í undankeppninni.
Þyrftu að vinna sinn riðil í Þjóðadeild
Þjóðadeildin gæti þannig verið raunhæf varaleið fyrir Ísland til að komast á HM, eða alla vega í umspilið, ef Ísland nær ekki öðru af tveimur efstu sætunum í sínum riðli í undankeppninni. Ísland þyrfti vissulega að vinna sinn riðil í Þjóðadeildinni, en það er að minnsta kosti mun auðveldara í B-deild en A-deild.
Væntanlega verður dregið í riðla fyrir Þjóðadeildina í desember. Ísland leikur áfram í B-deild og er í 2. styrkleikaflokki, en í efsta flokki eru England, Tékkland, Austurríki og Wales. Það eru því sterkustu andstæðingarnir sem gætu staðið í vegi fyrir Íslandi.
UEFA Nations League 2024 draw pots (one from each in group)
— Dale Johnson (@DaleJohnsonESPN) January 25, 2023
League B
POT 1
Austria
Czech R
England
Wales
POT 2
Finland
Ukraine
Iceland
Norway
POT 3
Slovenia
R Ireland
Albania
Montenegro
POT 4
Georgia
Greece
Turkey
Kazakhstan
Ef Ísland verður heppið með riðil og nær að vinna hann, haustið 2024, er nánast öruggt að það dugi liðinu til að komast í HM-umspilið, þar sem að sigurvegarar riðlanna í A-deild Þjóðadeildarinnar verða væntanlega í 1. eða 2. sæti síns riðils í undankeppninni, og því þegar öruggir um sæti á HM eða í umspili.