Eiríkur Valberg, lögreglufulltrúi miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að leit standi enn yfir að manninum. Hann vill ekki gefa upp nánari upplýsingar um leitina vegna rannsóknarhagsmuna.
Áður hefur komið fram að maðurinn hafi stungið annan á Laugavegi í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt þriðjudagsins 4. júlí síðastliðinn. Sá sem varð fyrir árásinni var fluttur á gjörgæsludeild Landspítalans. Að sögn Eiríks er líðan hans góð en hann gat ekki staðfest hvort maðurinn væri kominn af spítala.
Áður hefur Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn sagt í samtali við Vísi að lögregla muni kanna hvort lýst verði eftir manninum ef leit ber ekki árangur. Eiríkur vill ekki gefa upp hvort hringurinn hafi þrengst undanfarna daga.
Rannsókn á manndrápi á Lúx nær lokið
Rannsókn lögreglu á andláti karlmanns á þrítugsaldri sem lést í kjölfar höfuðhöggs á skemmtistaðnum Lúx í Austurstræti í júní er mjög langt komin að sögn Eiríks.
Hinum grunaða í málinu, sem er Íslendingur á þrítugsaldri, var sleppt úr haldi í lok síðasta mánaðar. Hann hefur hins vegar enn réttarstöðu sakbornings. Eiríkur segir lögreglu bíða eftir endanlegri niðurstöðu krufningar.
Hann vill ekki gefa upp fjölda vitna sem lögregla ræddi við í tengslum við málið. Hann segir þó að um töluverðan fjölda hafa verið að ræða.