Hin bandaríska Angelina Wiley greindi frá þessu á TikTok-reikningi sínum í maí. Kim Kardashian vakti síðan athygli á klippunni um helgina sem hefur farið eins og eldur um sinu á netheimum.
„Kim Kardashian bjargaði lífi mínu,“ segir hún í myndbandinu. „Síðasta nýársdag var ég skotin fjórum sinnum. Nóttina sem ég var skotin var ég í líkamsmótandi samfesting frá Skims undir kjólnum. Hann var svo þröngur á mér að hann kom bókstaflega í veg fyrir að mér blæddi út.“
Rofin þvagblaðra og byssukúla föst í maganum
Wiley var ein af tveimur manneskjum sem var skotin í skotárás í miðbæ Kansas borgar þegar verið var að fagna nýja árinu á miðnætti nýársdags 2023.
Samkvæmt lögregluskýrslu hlaut Wiley ekki lífshættulega áverka, ólíkt hinum einstaklingnum sem var skotinn. Hins vegar rofnaði þvagblaðra hennar, hún fékk skotsár á magann, fótinn og sprungur á mjaðmagrindina.

Wiley segist mæla með því að fólk kaup föt frá Skims.
„Ég ætla örugglega að kaupa meira frá þeim. Ég meina, ég ætti að klæðast því daglega, þetta er eins og brynja fyrir konur. Kallið það örlög eða Jesús, en ég ætla að kalla það Kim,“ sagði hún jafnframt í myndbandinu.
Í nýju myndbandi sem Wiley deildi um helgina segir hún að samfestingurinn sem heit hafi breytt för byssukúlnanna og varið líffæri sín. Þá greindi hún frá því að það væri enn byssukúla inni í maga hennar þar sem það sé hættulegra að taka hana út heldur en að skilja hana eftir inni.
Wiley segir líka að hún hafi fengið endurgreittt frá Skims vegna samfestingsins sem skemmdist og að hún hafi fengið tilkynningu um að hún fengi afslætti af framtíðarkaupum.