Átján barnafjölskyldur hafa að undanförnu haft samband við samtökin Réttur barna á flótta í von um aðstoð að sögn Estherar Ýrar Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Réttur barna á flótta. Fjölskyldurnar hafa sumar hverjar verið hér á landi í tæpt ár en eiga von á að vera vísað á brott aftur til Grikklands. „Staðreyndin er sú að ef að fólk er flutt til Grikklands þá fer það á götuna það er ekkert kerfi sem tekur á móti þeim,“ segir Esther.

Tímasetningin ámælisverð
Samtökunum finnist gróft að vísa fólki frá landi á meðan allir eru í sumarfríi og erfitt að fanga athygli fólks. „Sérstaklega fólks sem hefur verið að berjast með kjafti og klóm fyrir þetta fólk og hefur verið að láta í sér heyra og sinna ákveðnu aðhaldi fyrir ríkisstjórnina en það er erfiðara að ná í þetta fólk núna,“ útskýrir hún.
Palestínsk fjölskylda sem dvalið hefur hér í níu mánuði segir tilhugsun um endurkomu til Grikklands hræðilega. Lífið þar sé hræðilegt, sér í lagi fyrir barnunga syni þeirra, þar sem enga menntun eða heilbrigðisþjónustu er að fá. Þau vita ekki hvenær stjórnvöld hyggjast senda þau úr landi en fengu heimsókn frá lögreglu í síðustu viku.

Tók mynd af syninum fyrir skilríki
„Við fengum skilaboð frá lögreglunni um að við yrðum að fara. Konan mín fór fyrst á lögreglustöðina og útskýrði aðstæður okkar og sagði þeim að við gætum ekki farið aftur til Grikklands,“ segir fjölskyldufaðirinn Abd al-Rahman al-Zaq. Á fimmtudaginn hafi lögreglan komið til þeirra og tjáð þeim að þau yrðu að fara út.
„Ég var ekki hérna og barnið okkar hefur engin ferðaskilríki en á meðan konan mín var fyrir utan að tala við lögregluna fór kona sem var með þeim inn í íbúðina og tók mynd af barninu án þess að láta hana vita,“ útskýrir hann. Hún hafi svo tjáð eiginkonu hans að hún hefði tekið mynd af syni þeirra til að láta útbúa ferðaskilríki fyrir hann. „Við yrðum að fara aftur til Grikklands,“ segir Abd.
Börnin hamingjusöm hér
Þrátt fyrir að sonur þeirra hafi fæðst hér á landi og ekki víst að Grikkir taki við þeim vegna hans. Flóttinn hefur tekið mikið á eldri son þeirra hjóna sem er hættur að tala. Að sögn foreldra hans hefur honum þó farið fram eftir komuna til Íslands. Þau hræðast bakslag verði að brottvísun þeirra aftur til Grikklands.
Íröksk fjölskylda sem einnig bíður brottflutnings vita ekki hvort þau verði send burt í nótt eða á morgun. Börnin séu hamingjusöm á Íslandi. Þau fengu skilaboð þess efnis á föstudaginn í síðustu viku.

Verði heimilislaus í Grikklandi
„Við finnum muninn. Á Grikklandi er fólkið óvinsamlegt af því við erum flóttamenn. Okkur líkar lífið hér, líka börnunum okkar. Sonur okkar segir að fólkið sé gott hérna. Við viljum ekki fara aftur til Grikklands því þar verðum við heimilislaus. Það er ekkert líf fyrir okkur þar. Ef við förum aftur til Grikklands bíður dauðinn okkar,“ segir fjölskyldan sem hefur dvalið hér á landi frá því í desember. „Við viljum vera hér því hér finnum við lífið,“ segja þau að lokum.