Frá þessu er greint á Fótbolti.net. Þar er rætt við Eystein Pétur Lárusson, framkvæmdastjóra Breiðabliks.
„Við sendum undanþágubeiðni og það var rétt í þessu verið að samþykkja hana. Við fáum að vera á Kópavogsvelli,“ sagði Eysteinn Pétur við Fótbolta.net.
Blikar fengu ekki sömu undanþágu þegar Aberdeen kom í heimsókn árið 2021.
„Vorum að græja þessi „aðgönguhlið“ inn á völlinn, erum búnir að skipta um grasið sem þurfti til að mega spila Evrópuleiki í sumar. Erum að sýna fram á að við séum að vinna í okkar málum,“ sagði Eysteinn Pétur en bætti við að alltaf mætti gera betur.
Breiðablik fær því að spila á Kópavogsvelli í 3. umferð Meistaradeildarinnar ef liðið sigrar FCK eða þá í 3. umferð undankeppni Evrópudeildar fari svo að Blikar tapi.
Uppselt er á leik liðanna á Kópavogsvelli þriðjudaginn kemur, þann 25. júlí. Leikurinn hefst kl. 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Fréttin hefur verið uppfærð.