Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar í Grindavík, ræddi við fréttastofu í kvöldfréttum Stöðvar 2. Þá hafði gossvæðið verið lokað í hálftíma. Bogi segir fólk hafa sýnt banninu, sem gripið var til vegna hegðunar göngugarpa í gær, skilning.
„Þetta hefur bara gengið ágætlega. Fólk hefur alveg skilning á þessu og fattar svona alveg af hverju við erum að þessu held ég,“ segir Bogi.
Snýr fólk við þegar því er sagt að það er búið að loka svæðinu?
„Ja, svona flestir, það þarf stundum aðeins að rökræða en það hefst allt saman,“ segir Bogi sem segir að björgunarsveitir reyni einnig að ræða við þá sem eru illa skóaðir en sést hefur í allskyns skóbúnað líkt og sandala og annarskonar tufflur.
Ertu sammála lögreglustjóranum í því að loka svæðinu klukkan 18?
„Já já, ég er alveg sammála honum í því. Þetta er bara ákvörðun sem er tekin og við stöndum bara við hana með honum,“ segir Bogi sem segir björgunarsveitir lítið annað geta gert en að tala við göngugarpa sem ekki vilji hlýta fyrirmælum.
Mikil mengun á svæðinu
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, segist í samtali við fréttastofu ekki óttast að fólk muni fara aðrar og óöruggari leiðir að gosinu á meðan slíkri lokun stendur.
„Ég á nú ekki von á því, enda væri það bara svo erfitt að velja sér einhverja aðrar leiðir. Þetta er það sem við leggjum upp með að fólk nýti sér þær leiðir sem eru í boði frá Suðurstrandarvegi. Ég held að þessi ákvörðun að loka klukkan 18:00 létti störf viðbragðsaðila. Ég á ekki von á öðru. Það er okkar reynsla.“
Arnar Steinn Elísson, björgunarsveitarmaður í aðgerðarstjórn almannavarna, segir í samtali við fréttastofu að viðbragðsaðilar muni funda um stöðuna í fyrramálið kl. 8:30 og taka ákvörðun um hvort svæðið verði opið eða lokað almenningi þann dag.
„Eins og staðan er núna upp á gossvæðinu er töluvert mikil mengun. Það er ekki síst þess vegna sem við erum með svæðið lokað. Við erum að mæla upp í hæstu gildi mengunar, þetta eru grímugildi og viðbragðsaðilar eru að hörfa frá vegna reyks, sem stafar bæði af gróðureldum og gosinu sjálfu.“