Opnunartíminn verður á milli 16 og 18 þrjá daga í viku, á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Er þetta stysti opnunartími vínbúðar á landinu.
Þetta kemur fram hjá Austurfrétt.
Heimastjórn Djúpavogs hefur ekki miklar áhyggjur af þrengingunni. Að sögn Inga Ragnarssonar, fulltrúa í heimastjórninni, sé dagdrykkja ekki áhugamál hjá neinum íbúa á Djúpavogi.

Hugsanlega geti þrengingin valdið þurrbrjósta ferðamönnum ama en þeir geti þó leitað annað, það er á knæpur.
Samkvæmt Austurfrétt hefur ÁTVR auglýst eftir starfsfólki án árangurs. Helsta ástæðan fyrir fæð starfskrafta sé húsnæðishörgull. Lítið sé byggt af húsnæði og þar af leiðandi fáir sem setjast að í bænum.